Félagar í umhverfisverndarsamtökunum Sea Shepherd notuðu „fýlusprengjur" gegn hvalbátum í nótt til að trufla veiðar Japana í Suðurhöfum. Fyrr í nótt voru tveir félagar í Sea Shepherd fluttur frá japönsku hvalveiðiskipi, sem þeir fóru um borð í, yfir í bát áströlsku tollgæslunnar.
Paul Watson, leiðtogi samtakanna og skipstjóri Steve Irwin, sagði að áhöfn sín hefði haldið áfram aðgerðum gegn hvalveiðiflotanum skömmu eftir að mennirnir tveir voru fluttir úr hvalveiðiskipinu. Sagði hann að ráðist hefði verið til atlögu við skipið Yushin Maru með fýlusprengjum. Eftir þá árás verði ómögulegt að vinna á þilfari hvalveiðiskipsins í tvo sólarhringa.
Japanar áforma að veiða um 950 hrefnur og 50 langreyðar í vísindaskyni í Suðurhöfum.