Tveir dýraverndunarsinnar komu fyrir dóm í Lundúnum í dag, ákærð fyrir að standa fyrir mótmælaaðgerðum gegn hvalveiðum í japanska sendiráðinu í borginni í janúar. Um er að ræða fimmtugan karlmann og 14 ára gamla stúlku, sem hlekkjuðu sig við grindverk á sendiráðslóðinni.
Stúlkan sagði við fréttamenn eftir réttarhöldin, að hún fengi ekki skilið hvernig það væri andstætt lögum að verja hvali. „Ég gerði þetta vegna þess að hvalveiðar eru grimmilegar og ónauðsynlegar." Þá hvatti hún almenning til að sniðganga japanskar vörur.
Dómarinn í málinu bannaði fjölmiðlum að birta nafn stúlkunnar vegna aldurs hennar. Stúlkan lýsti mikilli óánægju með þetta og sagði, að tilgangur mótmælanna hefði verið að vekja athygli. Þess vegna skipti nafn hennar engu máli.
Málið verður tekið fyrir að nýju um miðjan febrúar.
Það er af hvalveiðum Japana í Suðurhöfum að frétta, að þær eru nú hafnar á ný eftir að skip Grænfriðunga og Sea Shepherd samtakanna, sigldu í land til að sækja eldsneyti og vistir.