Ákærð fyrir að mótmæla hvalveiðum

Dýraverndunarsinnar hafa mótmælt hvalveiðum Japana víða, þar á meðal utan …
Dýraverndunarsinnar hafa mótmælt hvalveiðum Japana víða, þar á meðal utan við japönsku ræðismannsskrifstofuna í Melbourne í Ástralíu. Reuters

Tveir dýra­vernd­un­ar­sinn­ar komu fyr­ir dóm í Lund­ún­um í dag, ákærð fyr­ir að standa fyr­ir mót­mælaaðgerðum gegn hval­veiðum í jap­anska sendi­ráðinu í borg­inni í janú­ar. Um er að ræða fimm­tug­an karl­mann og 14 ára gamla stúlku, sem hlekkjuðu sig við grind­verk á sendi­ráðslóðinni. 

Stúlk­an sagði við frétta­menn eft­ir rétt­ar­höld­in, að hún fengi ekki skilið hvernig það væri and­stætt lög­um að verja hvali. „Ég gerði þetta vegna þess að hval­veiðar eru grimmi­leg­ar og ónauðsyn­leg­ar." Þá hvatti hún al­menn­ing til að sniðganga jap­ansk­ar vör­ur.

Dóm­ar­inn í mál­inu bannaði fjöl­miðlum að birta nafn stúlk­unn­ar vegna ald­urs henn­ar. Stúlk­an lýsti mik­illi óánægju með þetta og sagði, að til­gang­ur mót­mæl­anna hefði verið að vekja at­hygli. Þess vegna skipti nafn henn­ar engu máli.

Málið verður tekið fyr­ir að nýju um miðjan fe­brú­ar.

Það er af hval­veiðum Jap­ana í Suður­höf­um að frétta, að þær eru nú hafn­ar á ný eft­ir að skip Grænfriðunga og Sea Shepherd sam­tak­anna, sigldu í land til að sækja eldsneyti og vist­ir.

mbl.is