Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hefur ítrekað andstöðu við hvalveiðar Japana og segist styðja breiðfylkingu, sem sé að myndast gegn vísindaveiðum Japana. Segir í yfirlýsingu frá framkvæmdastjórninni, að myndir sem birst hafi af hvalveiðum í sjónvarpi nýlega, minni á að sumar þjóðir haldi áfram hvalveiðum undir yfirskyni vísinda.
„Aðildarríki Evrópusambandsins verða að taka saman höndum um að vernda hvali. Framkvæmdastjórnin hvetur aðildarríkin til að samþykkja sameiginlega afstöðu um verndun hvala fyrir ársfund Alþjóðahvalveiðiráðsins í júní eins og framkvæmdastjórnin lagði til í desember 2007," segir m.a. í tilkynningunni, sem þeir Stavros Dimas, umhverfismálastjóri, og Joe Borg, sem fer með sjávarútvegsmál í framkvæmdastjórninni, senda sameiginlega frá sér.