Líklegt að hrefnuveiðikvóti verði gefinn út

Frá hvalskurði haustið 2006.
Frá hvalskurði haustið 2006. mbl.is/Ómar

Breska rík­is­út­varpið, BBC, hef­ur eft­ir skrif­stofu­stjóra sjáv­ar­út­vegs- og land­búnaðarráðuneyt­is­ins, að hval­veiðikvót­ar verði lík­lega gefn­ir út í sum­ar. Hrefnu­veiðimenn hafa nefnt 100 dýra kvóta og for­stjóri Hvals seg­ist einnig von­ast til, að gefn­ir verði út veiðikvót­ar fyr­ir langreyði, jafn­vel allt að 150 dýr.

Eng­ir at­vinnu­veiðikvót­ar voru gefn­ir út á síðasta ári þar sem ekki hafði tek­ist að ná samn­ing­um um að selja hvala­af­urðir til út­landa. 

BBC hef­ur eft­ir Gunn­ari Berg­mann Jóns­syni, for­manni Fé­lags hrefnu­veiðimanna, að 45 hrefn­ur hafi veiðst í fyrra­sum­ar og þær hafi all­ir selst á inn­an­lands­markaði. Sjáv­ar­út­vegs­ráðherra hafi sagst byggja ákvörðun sína um veiðikvóta á því hvort markaður sé fyr­ir afurðirn­ar og þess vegna von­ist hrefnu­veiðimenn eft­ir því að kvóti verði gef­inn út.

Stefán Ásmunds­son, skrif­stofu­stjóri og formaður sendi­nefnd­ar Íslands hjá Alþjóðahval­veiðiráðinu, seg­ir við BBC, að lík­lega verði í til­tölu­lega ná­inni framtíð gefn­ir út veiðikvót­ar fyr­ir hrefnu. Það mik­il­væg­asta sé að tryggja, að kvót­arn­ir séu inn­an sjálf­bærra marka.

Talið er að 175 þúsund hrefn­ur séu í Norður-Atlants­hafi og 100 dýra kvóti er því því inn­an skil­greindra sjálf­bærra marka.

Árið 2006 var veitt heim­ild til að veiða 9 langreyðar í at­vinnu­skyni. Ekki tókst þá að veiða upp í kvót­ann og ekki var gef­inn út kvóti á síðasta ári. Kristján Lofts­son, for­stjóri Hvals, seg­ir við BBC, að hann von­ist til þess að nýr veiðikvóti verði gef­inn út í sum­ar, jafn­vel fyr­ir allt að 150 dýr.

„Það eru 25 þúsund langreyðar á svæðinu þar sem við veiðum," seg­ir Kristján. „Ef­bóndi  ætti 25 þúsund naut­gripi á akr­in­um sín­um held ég ekki að hann myndi fall­ast á að eng­inn yrði felld­ur. Ef veiði á 150 dýr­um er ekki sjálf­bær þá veit ég ekki hvað er sjálf­bært."

Stefán seg­ist ekki úti­loka að gef­inn verði út veiðikvóti fyr­ir langreyði þótt ólík­legt sé að kvót­inn verði 150 dýr. Mest­all­ar afurðirn­ar, sem féllu til við veiðarn­ar árið 2006, eru enn í kæligeymsl­um en Hval­ur von­ast til að geta á end­an­um selt þær til Jap­ans. 

BBC hef­ur eft­ir Árna Finns­syni, for­manni Nátt­úru­vernd­ar­sam­taka Íslands, að það væri al­ger­lega til­gangs­laust að gefa út hval­veiðikvóta í sum­ar og slíkt myndi stríða gegn þeim anda sem Íslend­ing­ar vilji að ríki á alþjóðavett­vangi. „Það er lít­ill inn­an­lands­markaður og út­flutn­ings­leiðin til Jap­ans er lokuð; er Ísland aðeins að reyna að koma ein­hverj­um skila­boðum á fram­færi?" seg­ir Árni.

Robbie Marsland, formaður Bret­lands­deild­ar Alþjóða dýra­vernd­un­ar­sjóðsins, tek­ur í sama streng og seg­ir að það væri hættu­legt skref fyr­ir alþjóðleg­an orðstír Íslands, ferðaþjón­ustu og efna­hags­líf ef hval­veiðar í at­vinnu­skyni haldi þar áfram.

mbl.is

Bloggað um frétt­ina