Ágreiningur um hvalveiðar lítið mál

Hrefnubáturinn Njörður heldur til veiða í vikunni.
Hrefnubáturinn Njörður heldur til veiða í vikunni. mbl.is/G. Rúnar

Geir H. Haar­de, for­sæt­is­ráðherra, sagði á Alþingi í dag, að það væri vissu­lega óvenju­legt, að ráðherr­ar stjórn­ar­flokks geri op­in­ber­an ágrein­ing við mál sem einn ráðherra hafi for­ræði í líkt og gerst hef­ur varðandi hrefnu­veiðar nú.

Geir sagði hins veg­ar að um væri að ræða lítið mál og ekki af því tagi, sem á Norður­lönd­um yrði talið ráða úr­slit­um um hvort rík­is­stjórn sit­ur eða ekki.

„Þetta snýst um 40 hrefn­ur og ágrein­ing­ur­inn snýst ekki um nátt­úru­vernd­ar­sjón­ar­mið. Það er eng­inn að tala um að ekki fel­ist sjálf­bærni í þess­um veiðum og það dett­ur eng­um manni í hug að það sé óá­byrgt að taka þessa hvali með þeim hætti sem hér er gert. Málið snýst ein­göngu um hvaða mat fólk leggi á þetta mál gagn­vart öðrum hags­mun­um," sagði Geir.  

Hrefnu­veiðar Íslend­inga voru rædd­ar utan dag­skrár að ósk Guðna Ágústs­son­ar, þing­manns Fram­sókn­ar­flokks­ins, sem gagn­rýndi harðlega að rík­is­stjórn­in talaði ekki ein­um rómi í mál­inu. Spurði Guðni hvort Geir muni treysta Ingi­björgu Sól­rúnu Gísla­dótt­ur, ut­an­rík­is­ráðherra, til að flytja málstað Íslands í hrefnu­mál­inu á er­lendri grund.

Þá sagði Guðni, að sjáv­ar­út­vegs­ráðherra hefði verið lít­il­lækkaður og aðgerðir ut­an­rík­is­ráðherra væru fá­heyrðar. Sagði Guðni að með þessu hefðu kast­ljósi verið beint að Íslandi og rík­is­stjórn ætti ekki að skemmta skratt­an­um með svona tví­skinn­ingi.

Geir sagðist treysta ut­an­rík­is­ráðherra full­kom­lega til að fjalla um hags­muni Íslands á alþjóðavett­vangi enda skildi hún full­kom­lega um hvað málið snér­ist.

Stein­unn Val­dís Óskars­dótt­ir sagði m.a. að afstaða þing­manna til hval­veiða nú væri án efa önn­ur, en þing­manna árið 1999.

mbl.is

Bloggað um frétt­ina