Einar K. Guðfinnsson, sjávarútvegsráðherra, segist ekki telja að útflutningur hvalkjöts til Japans hafi nein áhrif á framboð Íslands til öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna. „Ég lít á það sem fimmaurabrandara hjá þeim sem halda slíku fram," sagði hann.
Einar segir að Hvalur hf. hafi fullan rétt á að koma sínum afurðum í verð enda hafi það falist í því að veittur var veiðikvóti til atvinnuveiða árið 2006.
Náttúruverndarsamtök hafa sagt, að með hvalkjötsútflutningi séu Íslendingar að grafa undir tilraunum formanns Alþjóðahvalveiðiráðsins til að ná málamiðlun innan ráðsins um hvalveiðar. Einar sagði um það, að Íslendingar hefðu ekki látið sitt eftir liggja árum saman að reyna að ná slíkri málamiðlun en ljóst væri að ekki gæti orðið nein málamiðlun án þess að hvalur verði nýttur. Þá væri ljóst, að ef í slíkri málamiðlun fælist að verslun með hvalaafurðir verði ekki heimilar milli ríkja myndi það þjóna hagsmunum stóru ríkjanna á kostnað þeirra minni.