Myglusveppur útbreiddur

Sveppirnir þrífast í viðvarandi raka.
Sveppirnir þrífast í viðvarandi raka.

Myglusveppur af því tagi sem fannst í færanlegum kennsluskúrum við Korpuskóla hefur fundist víða á höfuðborgarsvæðinu. Þetta segir Sylgja Dögg Sigurjónsdóttir líffræðingur en hún hefur rannsakað vel á fjórða hundrað húsa, stofnana og fyrirtækja að undanförnu. Hún telur mikilvægt að stjórnvöld viðurkenni vandann og bregðist við.

„Myglusveppur er eðlilegur í umhverfinu og er þar mikilvægur en hann á ekki að vaxa inni hjá okkur,“ segir Sylgja en bætir við að það þurfi ekki að vera mikið vandamál sé rétt brugðist við. Aðeins þar sem ekki er gert við vatnstjón eða raki fær að liggja óáreittur í langan tíma getur myglusveppurinn haft slæm áhrif á loft innandyra.

Þrátt fyrir að þessar séu kjöraðstæður sveppanna eru þeir nokkuð algengir í nýlegum húsum. Segir Sylgja þetta vera áhyggjuefni og skoða verði það mál og hvernig staðið er að byggingu nýrra húsa.

Sumar tegundir myglusveppa geta undir vissum kringumstæðum framleitt lífræn eiturefni. Eiturefnin geta þá borist í lofti og valdið eitrunaráhrifum og ofnæmiseinkennum. Sylgja segir mjög einstaklingsbundið hve mikið þurfi til að fólk verði veikt en einkenni sem geta komið fram eru útbrot, hósti, liðverkir, mígreniköst, magaverkir, óþægindi í öndunarfærum og fleira.

Ekki ástæða til að óttast

Til að stemma stigu við myglusveppi er í flestum tilfellum nóg að sinna viðhaldi vel og koma í veg fyrir að raki viðgangist lengi í mannabústöðum. Sé brugðist fljótt við myglusveppi er hægt að komast fyrir möguleg óþægindi og skaða af völdum hans.

Þó rannsóknir sýni að myglusveppur geti valdið hættulegum öndunarfæraeinkennum hjá börnum segir Sylgja að ekki sé ástæða til að óttast. Oftast sé auðvelt að koma í veg fyrir viðgang sveppanna og ráða niðurlögum þeirra. Það þurfi þó að gera með réttum hætti. „Þetta er bara spurning um að taka á málinu og vera meðvitaður um að það eigi ekki að vera mygla inni hjá þér.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: