Hvalkjötið sem Hvalur hf. flutti til Japans fyrr í sumar hefur ekki enn verið tollafgreitt. Ekkert innflutningsleyfi hefur fengist frá japönskum stjórnvöldum fyrir nærri 80 tonnum af hvalkjöti.
Um er að ræða afurðir af langreyðum, sem veiddar voru árið 2006. Kjötið var sent til Japans í maí á þessu ári og hefur verið í frystigeymslu síðan. Þá sendu Norðmenn 5 tonn af hrefnukjöti með sömu sendingu. Íslendingar hafa ekki selt hvalkjöt til Japans frá því í byrjun tíunda áratugar síðustu aldar.