Vestnorræna ráðið, sem nú situr á fundi í Grundarfirði, samþykkti í dag ályktun þar sem segir, að svo framarlega sem ákvarðanir um hval- og selveiðar séu teknar á grundvelli vísindarannsókna og veiðarnar ógni ekki viðgangi viðkomandi dýrastofna, þá styðji ráðið sjálfbærar veiðar, hvort sem um er að ræða veiðar í atvinnuskyni eða vísindaskyni.
Í ályktuninni segir, að ráðið styðji þess vegna veiðar Færeyja, Grænlands, Japans, Íslands, Noregs, Rússlands og Bandaríkjanna. Ákvarðanir þessara landa um hvalveiðar byggi á stefnu um nýtingu náttúruauðlinda á sjálfbæran hátt og sé einnig hluti af menningararfi þjóðanna. Þá fari veiðarnar fram í samræmi við alþjóðalög.
Vestnorræna ráðið undirstrikar að það sé ekki aðeins réttur sjálfstæðra þjóða heldur einnig skylda að nýta allar náttúruauðlindir sínar á sjálfbæran hátt, svo framarlega sem sú nýting byggi á viðurkenndum vísindarannsóknum.
Vestnorræna ráðið er samstarfsvettvangur þinga Færeyja, Grænlands og Íslands.