Vinnuhópur Alþjóðahvalveiðiráðsins, IWC, fundar á Flórída í Bandaríkjunum í vikunni í þeim tilgangi að reyna að höggva á þá hnúta sem hindra að ráðið virki eins og það á að gera. Stefán Ásmundsson, annar fulltrúi Íslands á fundinum, segir að verkefnið sé að skoða málið frá ýmsum hliðum og niðurstöðurnar verði síðan ræddar á sérstökum aukafundi á næsta ári.
Á ársfundi Alþjóðahvalveiðiráðsins í Santiago í Chile í sumar var samþykkt að koma á vinnuhópi, sem er ætlað að reyna að finna lausnir á efnislegum ágreiningi aðildarríkja IWC. Fundur hópsins hófst á Flórída í Bandaríkjunum í gær og honum lýkur á föstudag, en fulltrúar liðlega 20 ríkja sitja fundinn.
Stefán Ásmundsson segir að mjög skiptar skoðanir séu innan ráðsins og því sé ekki auðvelt að ganga frá sameiginlegu samkomulagi, en á fundinum sé verið að reyna að leita leiða til þess að komast að samkomulagi, sem geti tryggt að IWC gegni því hlutverki sem ráðið eigi að gegna. „Við vonum að það gangi sem best að þoka málunum áfram í viðræðunum í vikunni,“ segir Stefán.