Norska sjávarútvegsráðuneytið hefur ákveðið að hrefnuveiðikvótar ársins verði ekki lengur bundnir við skip, eins og verið hefur til þessa, heldur geti skip veitt eins mikið af hvölum og þau komast yfir á vertíðinni, sem stendur frá 1. apríl til 31. ágúst.
Fram kemur í norska blaðinu Fiskaren, að veiðikvótinn er alls 885 dýr á þessu ári. Þar af má veiða 750 dýr í efnahagslögsögu Noregs og á fiskverndarsvæðinu við Svalbarða og 135 dýr í fiskveiðilögsögunni við Jan Mayen.
Norskir hrefnuveiðimenn hafa lagt áherslu á að hrefnuveiðikvótar verði ekki bundnir við skip. Gert er ráð fyrir að áfram verði hægt að setja eftirlitsmenn um borð í veiðiskipin til að fylgjast með veiðunum.
Í fyrsta tóku 27 skip þátt í hrefnuveiðunum við Noreg. Þá veiddust 535 dýr af alls 1052 dýra kvóta.