Fréttaskýring: Sjúklingar sendir utan fyrir sérhæfða meðferð

Um fimmtán manns grein­ast með krabba­mein í vélinda á ári á Íslandi og meinið er helm­ingi al­geng­ara í körl­um en kon­um. Meðal­ald­ur við grein­ingu er 70 ár og Geir H. Haar­de, for­sæt­is­ráðherra og formaður Sjálf­stæðis­flokks­ins, er þannig í yngri kant­in­um við grein­ingu, en hann er 57 ára gam­all.

Meðferðin fer ætíð eft­ir því á hvaða stigi krabba­meinið er þegar það upp­götv­ast og einnig hef­ur staðsetn­ing mikið að segja þegar meðferð er ákveðin.

Teymi á Land­spít­al­an­um

„Á Landspítala starfar teymi lækna sem samanstendur af skurðlæknum, meltingarsérfræðingum, krabbameinslæknum, röntgenlæknum og meinafræðingum og á sameiginlegum fundi er farið yfir hvert tilfelli og tekin sameiginleg ákvörðun um bestu meðferð hverju sinni. Hún getur verið skurðaðgerð, geislameðferð og/eða krabbameinslyfjameðferð og geta sjúklingar farið í gegnum allar þessar meðferðir eða einhvern hluta þeirra allt eftir útbreiðslu og staðsetningu meinsins,“ segir Agnes Smáradóttir, krabbameinslæknir á Landspítalanum.

Geir sagði í ávarpi sínu í gær að hann færi utan til lækn­is­meðferðar. „Þó eru krabba­mein í vélinda meðhöndluð í flest­um til­fell­um hér á landi, ein­staka sinn­um hef­ur verið nauðsyn­legt að senda sjúk­linga utan til meðferðar og/​eða grein­ing­ar ef sér­hæfð tæki eru ekki til á Íslandi,“ seg­ir Agnes.

Eft­ir meðferð við krabba­meini í vélinda er mis­mun­andi hvort lík­ams­starf­semi skerðist. Það fer eft­ir eðli meins­ins og meðferðar­inn­ar. Stund­um er hægt að fjar­lægja æxlið ein­göngu en fyr­ir kem­ur að nauðsyn­legt sé að fjar­lægja allt vélindað. „Það er mjög mik­ill mun­ur á hversu góða heilsu fólk hef­ur eft­ir meðferð eft­ir því hvaða meðferðum er beitt,“ seg­ir Agnes.

Mikl­ar rann­sókn­ir

Margar rannsóknir eru gerðar til að meta stærð og gerð æxlis í vélinda. Gerð er speglun á vélinda til að greina æxlið og taka sýni úr æxlinu til að sjá hvers eðlis það er. Þá er einnig gerð svokölluð ómspeglun til að sjá nákvæmlega hversu djúpt æxlið nær, sneiðmyndir eru teknar og fleiri rannsóknir eru gerðar.

Fyrstu ein­kenni um krabba­mein í vélinda eru oft­ast erfiðleik­ar við að kyngja, til­finn­ing­in get­ur verið eins og kökk­ur í háls­in­um, en einnig geta verið óljós ein­kenni við kyng­ingu. Stund­um get­ur æxlið valdið verkj­um og upp­köst og blóðugur upp­gang­ur geta einnig verið ein­kenni um vélindakrabba­mein.

Mynd­ast yf­ir­leitt á löng­um tíma

Krabba­mein í vélinda mynd­ast yf­ir­leitt á frek­ar löng­um tíma, þ.e. nokkr­um mánuðum eða árum. Und­an­tekn­ing­ar eru þó frá því en oft­ast er það falið nokkuð lengi áður en það grein­ist.

Vélinda­bak­flæði hef­ur verið talið tengj­ast kirt­il­krabba­meini í vélinda og fjölg­un sjúk­linga með vélinda­bak­flæði er tal­in vera ein af megin­á­stæðum fyr­ir aukn­ingu á tíðni kirt­il­krabba­meins í neðri hluta vélind­ans, að því er kem­ur fram í riti Krabba­meins­fé­lags­ins 2008.

Þar seg­ir einnig að til­gát­ur hafi verið sett­ar fram um að vax­andi tíðni bak­flæðis á Vest­ur­lönd­um standi í sam­bandi við lækk­andi tíðni sýk­inga í maga af völd­um Helicobakt­er pyl­ori, en við hvarf sýk­ils­ins eykst maga­sýr­an.

Vélindað flyt­ur fæðuna frá koki og niður í maga. Það byrj­ar fyr­ir aft­an munn­inn og fæðan fer fyrst niður vélindað, sem er nokk­urs kon­ar mjótt rör eða sí­valn­ing­ur úr mjúk­um vöðva. Það ligg­ur í brjóst­hol­inu og niður að því þar sem brjóst­kass­inn end­ar. Þar tek­ur mag­inn við. Vélindað ligg­ur þannig frá munn­holi og niður að maga og skil­ar fæðunni frá munni niður í maga.

Vélindað er mjúk­ur vöðvi, ekki mjög þykk­ur og í því eru takt­fast­ar hreyf­ing­ar sem ýta matn­um niður. Þar fer eng­in melt­ing fram held­ur er það ein­göngu flutn­ings­tæki. Það er um 25 cm að lengd og 1,5 cm í þver­mál. Vöðvinn er svo sterk­ur að þó að maður stæði á haus og drykki færi vökvinn samt sem áður ofan í maga.

Að því er fram kem­ur í krabba­meins­skrá 2008 er vélindakrabba­mein 1-1,5% allra ill­kynja æxla á Íslandi. Vélindakrabba­mein veld­ur um 2-5% dauðsfalla af völd­um krabba­meina. Á ár­un­um 2002-2006 var ald­ursstaðlað ný­gengi hér á landi 5,2 af 100.000 hjá körl­um og 1,8 af 100.000 hjá kon­um.

mbl.is

Bloggað um frétt­ina