„Sú kenning hefur verið sett fram af ýmsum að forsætisráðherra hafi þingrofsréttinn einn og sér. Þetta er misskilningur á íslenskri stjórnskipun,“ sagði Ólafur Ragnar Grímsson forseti á blaðamannafundi á Bessastöðum í gær.
Á fundinum tiltók Ólafur jafnframt fjögur atriði sem umfram allt þyrftu að setja svip á þær ákvarðanir sem teknar verða á næstu dögum. Og markaði með því stjórnarmynduninni farveg.
„Forsætisráðherra hefur tillögurétt um þingrof og síðan er það sjálfstætt mat forseta eins og dæmin sanna úr íslenskri sögu hvort hann verður við því eða ekki. [...]Frá og með þessari stundu er ekki starfandi neinn forsætisráðherra í landinu sem getur gert tillögu um þingrof og samkvæmt stjórnskipun er það þess vegna alfarið í höndum forsetans,“ sagði Ólafur.
„Þetta gengur þvert á það sem maður myndi ætla að stjórnarskráin fæli í sér,“ segir Björg Thorarensen, prófessor í stjórnskipunarrétti við lagadeild Háskóla Íslands, um ummæli Ólafs Ragnars. „Ég held að það liggi alveg ljóst fyrir að frumkvæðisrétturinn er að öllu leyti hjá ráðherra, en ekki hjá forseta. Það er alveg ótvírætt,“ segir Björg.
„Hafi forseti virkilega átt við að það sé enginn starfandi forsætisráðherra í landinu þá er það stórkostlegur og ótrúlegur misskilningur,“ segir Guðni Th. Jóhannesson sagnfræðingur.
Nánar er fjallað um málið í Morgunblaðinu í dag.