Þótt ríkisstjórn Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks sé fallin er ljóst að einhvers konar ríkisstjórn þarf að starfa fram að næstu kosningum, sem fyrirhugaðar eru í vor, svo landið verði ekki stjórnlaust á meðan. En hvers konar stjórn verður það? Sumir kalla eftir minnihlutastjórn, aðrir eftir þjóðstjórn, meðan margir kjósa helst að fá utanþingsstjórn og einhverjir nefna starfsstjórn. En hver er munurinn á þessum fjórum tegundum stjórna?
Undir öllum venjulegum kringumstæðum, þegar forsvarsmenn samstarfsflokka í ríkisstjórn komast að þeirri niðurstöðu að þeir geti ekki starfað áfram saman, er venjan sú að forseti Íslands feli fráfarandi ríkisstjórn að sitja áfram sem starfsstjórn eða bráðabirgðastjórn þar til ný ríkisstjórn hefur verið mynduð, t.d. eftir kosningar, til að tryggja að landið sé ekki stjórnlaust. Slíkri starfsstjórn er í reynd ekki ætlað að hafa neitt nýtt pólitískt frumkvæði fram að komandi kosningum.
Flestar þær stjórnir sem hafa sprungið hérlendis hafa orðið við ósk forsetans og setið fram að kosningum. Þó eru dæmi þess að stjórnarsamstarf hafi sprungið með slíkum hvelli að forsvarsmenn flokkanna hafi ekki talið sig geta orðið við þeirri ósk að starfa áfram í bráðabirgðastjórn og hefur þá stundum verið gripið til þess ráðs að mynda minnihlutastjórn. Samkvæmt upplýsingum frá Gunnari Helga Kristinssyni, prófessor í stjórnmálafræði við HÍ, hafa aðeins verið myndaðar þrjár minnihlutastjórnir hérlendis.
1949-50 leiddi Ólafur Thors minnihlutastjórn Sjálfstæðisflokks, 1958-59 leiddi Emil Jónsson minnihlutastjórn Alþýðuflokks studda Sjálfstæðisflokknum og 1979-80 tók Alþýðuflokkurinn við stjórnartaumum landsins, með Benedikt Gröndal sem forsætisráðherra, eftir að vinstristjórn Framsóknarflokks, Alþýðubandalags og Alþýðuflokks sprakk.
Nánar er fjallað um málið í Morunblaðinu í dag.