Norræn gagnrýni á aukinn hvalveiðikvóta

Rax


Norður­lönd­in gagn­rýna ákvörðun Íslend­inga um að auka hval­veiðikvót­ann. Það er meðal ann­ars tíma­setn­ing ákvörðunar um auk­inn kvóta sem vek­ur at­hygli, ekki síst vegna fjár­málakrepp­unn­ar. Og að auki samþykkti rík­is­stjórn­in auk­inn kvóta, dag­inn eft­ir að til­kynnt var að hún segði af sér. Þetta kem­ur fram í til­kynn­ingu frá Norður­landaráði.

„Hval­veiðar eru um­deild­ar bæði á Norður­lönd­um og í heim­in­um öll­um. Það er und­ar­legt að rík­is­stjórn Íslands skuli ákveða að und­ir­rita svo um­deild­an samn­ing í miðri fjár­mála- og stjórn­ar­kreppu. Í slíkri póli­tískri ringul­reið ætti ekki að ræða mál sem þetta“, seg­ir Sinikka Bohlin, þingmaður frá Svíþjóð og for­seti Norður­landaráðs.

Bohlin sagði þetta á fundi Norður­landaráðs á Íslandi sem hald­inn er dag­ana 27.-28. janú­ar. Svíþjóð fer í ár með for­mennsku í Norður­landaráði sem er op­in­ber sam­starfs­vett­vang­ur þing­manna Norður­land­anna.

Nor­ræna ráðherra­nefnd­in, það er að segja sam­starfs­vett­vang­ur rík­is­stjórna Norður­land­anna hef­ur ekki tekið af­stöðu til hval­veiða á Norður­lönd­um. Um annað spen­dýr sem lif­ir í vatni, sel­inn, hef­ur þó verið mikið fjallað, m.a. í rík­is­stjórn­um Norður­land­anna.
Í yf­ir­lýs­ingu sem sjáv­ar­út­vegs­ráðherr­ar Norður­land­anna samþykktu sum­arið 2008, var meðal ann­ars lögð áhersla á mik­il­vægi þess að auka jafn­vægi milli vernd­un­ar og nýt­ing­ar sela­stofns­ins í Eystra­salt­inu og í Norður-Atlants­hafi.

mbl.is

Bloggað um frétt­ina