Næstu skref í stjórnarmyndun

Stjórnarmyndunarviðræður standa enn yfir og fundað hefur verið stíft síðustu …
Stjórnarmyndunarviðræður standa enn yfir og fundað hefur verið stíft síðustu daga. mbl.is/RAX

Stefnt er að því að ljúka mál­efna­samn­ingi nýrr­ar rík­is­stjórn­ar á morg­un eða í síðasta lagi á laug­ar­dags­morg­un. Ný rík­is­stjórn tek­ur því að lík­ind­um við stjórn­artaum­un­um á laug­ar­dag. 

Vinstri græn hafa þegar kallað sam­an flokks­ráð sitt og fengið þaðan skýrt umboð til stjórn­ar­mynd­un­ar. Sam­kvæmt lög­um Sam­fylk­ing­ar­inn­ar þarf hún að kalla sam­an sína flokks­stjórn og bera und­ir hana mál­efna­samn­ing og ráðherra­skip­an í nýrri rík­is­stjórn. Fund­inn má  boða með 12 tíma fyr­ir­vara hið minnsta en von­ir standa til þess að á morg­un liggi sam­komu­lag við VG fyr­ir þannig að hægt sé að kalla fund sam­an síðla á morg­un.

Fram­sókn­ar­flokkn­um ber að fá samþykki miðstjórn­ar fyr­ir þátt­töku í rík­is­stjórn­ar­sam­starfi en eng­ar sér­stak­ar regl­ur gilda um stuðning við minni­hluta­stjórn. Þar á bæ stend­ur engu að síður til að kalla miðstjórn­ina sam­an til að leggja bless­un sína yfir sam­komu­lagið.  Fram­sókn hyggst boða til blaðamanna­fund­ar síðar í dag og skýra sín­ar áhersl­ur hvað varðar stjórn­ar­mynd­un­ina.

Þess ber að geta að þó að nöfn­in séu mis­mun­andi þá er flokks­stjórn Sam­fylk­ing­ar, flokks­ráð VG og miðstjórn Fram­sókn­ar raun­ar sama fyr­ir­bærið. Þess­ir fund­ir fara með æðsta vald flokks­ins milli lands­funda, sem fram­sókn­ar­menn kalla reynd­ar flokksþing.

Þessa fundi sitja yf­ir­leitt aðal- og vara­menn stjórn­ar viðkom­andi flokks, þing­menn, varaþing­menn, sveit­ar­stjórn­ar­full­trú­ar, for­menn svæðis­fé­laga, for­menn kjör­dæm­aráða, for­menn svæðis­fé­laga, for­menn ungliðahreyf­inga og í kring­um 30 full­trú­ar sem kosn­ir eru sér­stak­lega af lands­fundi.

Oft­ast eru þess­ir fund­ir hins veg­ar opn­ir öll­um flokks­fé­lög­um en ein­ung­is full­trú­ar hafa at­kvæðarétt. 

mbl.is

Bloggað um frétt­ina