Fréttaskýring: Áherslan lögð á björgun

Sam­starf Vinstri grænna og Sam­fylk­ing­ar­inn­ar í rík­is­stjórn, sem var­in verður falli af Fram­sókn­ar­flokkn­um, mun öðru frem­ur byggj­ast á því að koma í fram­kvæmd tíma­settri áætl­un um aðgerðir til að hjálpa heim­il­um og fyr­ir­tækj­um að tak­ast á við erfiðleika. Í viðræðum flokk­anna hafa þess­ar aðgerðir meðal ann­ars verið kallaðar „björg­un­araðgerðir“.

Lögð verður áhersla á að flýta því eins og kost­ur er að fá rík­is­bank­ana, Nýja Glitni, Nýja Kaupþing og NBI, til þess að „virka al­menni­lega“ eins og viðmæl­andi Morg­un­blaðsins komst að orði. Sam­vinna við Alþjóðagjald­eyr­is­sjóðinn verður áfram fyr­ir hendi en vilji er til þess hjá Vinstri græn­um að ræða skil­yrði sjóðsins og hvernig þau sam­ræm­ast stöðunni í land­inu. Sam­kvæmt heim­ild­um Morg­un­blaðsins vilja flokk­arn­ir að ferlið verði unnið í sam­ráði við „fær­ustu sér­fræðinga“ sem hafa góð tengsl við alþjóðasam­fé­lagið. Telja flokk­arn­ir brýnt að hafa um­gjörð um efna­hags­áætl­un­ina trú­verðuga og bet­ur til þess fallna en verið hef­ur til þessa að auka traust á alþjóðavett­vangi. Flokk­arn­ir telja Gylfa Magnús­son, dós­ent í hag­fræði við Há­skóla Íslands, geta styrkt efna­hagsaðgerðir og sam­ræmt aðgerðir bet­ur en tek­ist hef­ur til þessa. Hann mun gegna embætti viðskiptaráðherra.

Bú­setu­úr­ræði fyr­ir fólk í vanda

Flokkarnir hafa lagt áherslu á að skýr úrræði verði ljós, frá fyrsta starfsdegi stjórnarinnar, fyrir fólk sem ekki getur lengur borgað af húsum sínum. Þau fælust öðru fremur í því að slaka á innheimtukröfum og gera fólki mögulegt að vera í íbúðum og húsum sínum, a.m.k. tímabundið, meðan leyst er úr greiðsluerfiðleikum.

Þá hafa flokk­arn­ir hug á því að láta kanna til hlít­ar hvort mögu­legt verði fyr­ir fólk að fá sér­eign­ar­sparnað sinn greidd­an út, að minnsta kosti að ein­hverju leyti, til þess að hjálpa þeim sem eru í „verstu neyðinni“.

Í at­vinnu­mál­um hafa flokk­arn­ir rætt um að mögu­legt verði að koma á sér­stök­um aðgerðum til að efla starf­semi fyr­ir iðnaðar­menn. Meðal ann­ars þannig að end­ur­bótalán verði veitt til viðhalds á bygg­ing­um.

Auk þess hafa Vinstri græn lagt á það áherslu í viðræðum flokk­anna að strax verði und­ir­bú­in vinna fyr­ir ungt fólk á sum­ar­mánuðum þessa árs. Sam­kvæmt spám er talið að at­vinnu­leysi geti náð há­marki á vor­mánuðum þegar skól­um lýk­ur og nem­end­ur, það er þeir sem eru eldri en sex­tán ára, koma út á vinnu­markaðinn.

Meðal ann­ars hef­ur verið rætt milli for­svars­manna flokk­anna að um­hverf­i­s­væn­um störf­um, eins og skóg­rækt, verði haldið gang­andi eins og tíðkast hef­ur víða um land árum sam­an.

Mik­il áhersla verður lögð á að gera breyt­ing­ar á lög­um sem taka til gjaldþrota ein­stak­linga. Flokk­arn­ir eru sam­mála um að mik­il­vægt sé að breyta þeim til þess að fólk sem verður gjaldþrota eigi meiri mögu­leika á því að byggja upp „nýtt líf“, eins og einn viðmæl­enda komst að orði.

Í hnot­skurn
» Vinstri græn og Samfylkingin hafa lagt áherslu á það, í viðræðum forystumanna sinna flokka, að verkefni sem þarf að leysa séu ópólitísk. Skipuleggja þurfi áætlanir sem raunhæft sé að hrinda strax í framkvæmd.
» Að miklu leyti er byggt á áætlun ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokksins og Samfylkingar sem gerð var í samráði við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn. Hún var sett upp og skipulögð eftir að bankarnir voru yfirteknir af Fjármálaeftirlitinu á grundvelli neyðarlaga.
Nán­ar um málið
í Morg­un­blaðinu
Áskrif­end­ur:
Nán­ar um málið
í Morg­un­blaðinu
Áskrif­end­ur: