Minnihlutastjórnin sem nú er í fæðingu er á margan hátt ósambærileg við fyrri minnihlutastjórnir lýðveldisins, að mati Helga Skúla Kjartanssonar, prófessors í sagnfræði við Háskóla Íslands.
„Stjórnir Emils Jónssonar (desember 1958 til nóvember 1959) og Benedikts Gröndals (október 1979 til febrúar 1980) voru eins flokks stjórnir Alþýðuflokks með stuðningi Sjálfstæðisflokks og þess vegna var enginn samningur milli stjórnarflokkanna eins og núna. Það bar a.m.k. ekki á því út á við að Sjálfstæðisflokkurinn setti þessum stjórnum nein nákvæm skilyrði.“
Inntur eftir því hverju þessar þrjár stjórnir komu í verk segir Helgi Skúli að stjórn Emils hafi hafið veigamiklar efnahagsaðgerðir sem hafi verið undanfari viðreisnarinnar, auk þess sem hún hafi komið á kjördæmabreytingu.
Stjórn Ólafs Thors hafi á sínum stutta valdatíma undirbúið gerbreytingu í hagstjórn landsins, sem hafi ekki orðið að veruleika fyrr en eftir stjórnarskipti. Þá hafi það meðal annars komið í hlut stjórnar Benedikts að framkvæma myntbreytinguna. baldura@mbl.is