Guðbjartur verður forseti Alþingis

„Þetta er krefj­andi verk­efni, sér­stak­lega af því að við erum með minni­hluta í stjórn. Það reyn­ir meira á samn­inga nú en oft áður. Ég hlakka til að glíma við þetta,“ seg­ir Guðbjart­ur Hann­es­son þingmaður Sam­fylk­ing­ar­inn­ar í Norðvest­ur kjör­dæm­is, verðandi for­seti Alþing­is.

Guðbjart­ur seg­ist taka við góðu búi að mörgu leyti í sam­bandi við stjórn þings­ins en hann tek­ur við for­seta­embætt­inu af Sturlu Böðvars­syni, 1. þing­manni Norðvest­ur­kjör­dæm­is.

„En nú reyn­ir á því um­hverfið er annað og það ger­ir öðru­vísi kröf­ur þannig að það er mjög spenn­andi. Verk­efni okk­ar hlýt­ur nátt­úru­lega að vera það að þingið fari að vinna meira að mál­um sam­eig­in­lega. Það er ósk­andi að menn legg­ist á eitt við að leysa úr mál­um, það er verk­efni okk­ar og von­andi eiga nú all­ir flokk­ar það mark­mið að ná fram úr­bót­um, bæði fyr­ir fyr­ir­tæki og heim­ili. Það er okk­ar stóra verk­efni að koma mál­um þannig fyr­ir að við kom­um til móts við kröf­urn­ar um aukið lýðræði og breyt­ing­ar. Ég er frek­ar bjart­sýnn og ég held að megi treysta á það að menn standi sam­an og falli ekki í þá freistni að fara að flytja kosn­inga­bar­átt­una inn í þingið,“ seg­ir Guðbjart­ur Hann­es­son, verðandi for­seti Alþing­is.

Guðbjart­ur Hann­es­son er á fimm­tug­asta og ní­unda ald­ursári. Hann var fyrst kjör­inn á Alþingi vorið 2007. Hann hef­ur síðan verið formaður fé­lags- og trygg­inga­mála­nefnd­ar og á að auki sæti í fjár­laga­nefnd og mennta­mála­nefnd. Þá er hann full­trúi í Íslands­deild Vestn­or­ræna ráðsins. Guðbjart­ur er kvænt­ur Sigrúnu Ásmunds­dótt­ur og eiga þau tvær dæt­ur.

mbl.is

Bloggað um frétt­ina