Japanar neita að hætta vísindaveiðum

Japanskt hvalveiðiskip.
Japanskt hvalveiðiskip.

Jap­an­ar sögðust í morg­un myndu hafna hveri þeirri til­lögu Alþjóðahval­veiðiráðsins, sem fæli í sér stöðvun vís­inda­hval­veiða í Suður­höf­um þótt þeir fengju á móti að veiða hvali við strend­ur Jap­ans.

Inn­an hval­veiðiráðsins hef­ur verið unnið að mála­miðlun milli hval­veiðiþjóða og þeirra þjóða, sem vilja að hval­veiðar verði al­farið bannaðar. Rætt hef­ur verið um, að Jap­an­ir fái heim­ild ráðsins til að stunda tak­markaðar strand­veiðar gegn því að þeir láti af vís­inda­veiðum sín­um í Suður­höf­um. Jap­anski hval­veiðiflot­inn er þar núna og er stefnt að því að veiða  935 hrefn­ur og 50 langreyðar.

Shigeru Is­hiba, sjáv­ar­út­vegs- og land­búnaðarráðherra Jap­ans, sagði í morg­un að japönsk stjórn­völd muni ekki fall­ast á til­lög­ur um að stöðva vís­inda­veiðarn­ar. Hann sagði hins veg­ar, að Jap­an­ar myndu skoða til­lög­una vand­lega. 

Sam­kvæmt til­lög­unni yrðu Japön­um heim­ilt að stunda strand­veiðar í at­vinnu­skyni á fjór­um svæðum í fimm ár. Veiðarn­ar væru háðar því skil­yrði að bát­ar færu úr höfn að morgni og snéru aft­ur að kvöldi. Þá yrðu afurðirn­ar nýtt­ar inn­an­lands.

Á móti kæmi, að Jap­an­ar drægju smátt og smátt úr vís­inda­veiðum á hrefnu í Suður­höf­um og legðu af áform um veiðar á langreyði og hnúfu­bak. 

Fjallað verður um málið á fundi Alþjóðahval­veiðráðsins í Róm í mars. 

mbl.is

Bloggað um frétt­ina