Áformum um flutning skrifstofa nokkurra alþingismanna verður væntanlega frestað í ljósi ákvörðunar um alþingiskosningar 25. apríl næstkomandi og myndunar nýrrar ríkisstjórnar, að sögn Helga Bernódussonar, skrifstofustjóra Alþingis.
Ákveðið hefur verið að flytja húsið Vonarstræti 12 til á Alþingisreitnum. Þar voru níu alþingismenn Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs með skrifstofur. Á liðnu hausti var því ljóst að þeir alþingismenn sem þar voru færu annað og var ætlunin að rýma húsið nú í febrúar.
Alþingi hefur leigt efstu hæð Aðalstrætis 6, gömlu Morgunblaðshallarinnar, þar sem Tryggingamiðstöðin var til húsa. Til greina kom að þingmenn úr Vonarstræti 12 flyttu þangað.