Björn Valur Gíslason hefur ákveðið að taka þátt í forvali Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs í Norðausturkjördæmi og stefnir á að skipa 2.-3. sæti lista flokksins fyrir Alþingiskosningarnar 25. apríl nk. Jafnframt lýsir hann stuðningi við formann flokksins, Steingrím J. Sigfússon, í fyrsta sæti framboðslistans.
Björn Valur Gíslason er fæddur í Ólafsfirði 20. sept. 1959 og bjó þar lengst af. Síðustu árin hefur hann haft búsetu á Akureyri.
Frá árinu 1975 hefur Björn Valur haft sjómennsku að aðalstarfi. Hann lauk prófi frá Stýrimannaskólanum í Reykjavík árið 1984 og hefur starfað sem stýrimaður og skipstjóri á bátum og togurum. Björn Valur er nú skipstjóri á frystitogaranum Kleifabergi, sem Brim hf. gerir út. Vorið 2006 lauk hann kennsluréttindanámi frá Háskólanum á Akureyri sem framhaldsskólakennari, að því er segir í tilkynningu.
Björn Valur er einn af stofnendum VG og hefur starfað í flokknum frá stofnun hans. Á sínum tíma sat hann á Alþingi fyrir Alþýðubandalagið sem varamaður Steingríms J. Sigfússonar. Við síðustu Alþingiskosningar skipaði Björn Valur þriðja sætið á framboðslista VG í Norðausturkjördæmi og hefur sem fyrsti varamaður tekið nokkrum sinnum sæti á Alþingi á yfirstandandi kjörtímabili fyrir Steingrím J. Sigfússon og Þuríði Bachman.
Björn Valur var bæjarfulltrúi Vinstrimanna og óháðra og nefndarmaður í ýmsum nefndum fyrir Ólafsfjarðarbæ á árunum 1986-1998. Af öðrum trúnaðarstörfum má nefna setu í stjórn Skipstjóra- og stýrimannafélags Norðlendinga.
„Björn Valur hefur lagt fram fjölmörg mál á Alþingi þegar hann hefur setið þar sem varamaður. Hann hefur verið virkur í starfi VG í Norðausturkjördæmi og á landsvísu og unnið m.a. að stefnumótun flokksins í atvinnumálum," samkvæmt tilkynningu.
Björn Valur er kvæntur Þuríði Lilju Rósenbergsdóttur og eiga þau saman þrjár dætur; Sigurveigu Petru 28 ára, Berglindi Hörpu 23 ára og Kötlu Hrund 18 ára. Fyrir átti Björn Valur einn son, sem nú er látinn.