Ragnheiður Ólafsdóttir, varaþingmaður Frjálslynda flokksins í Norðvesturkjördæmi tekur í dag sæti á Alþingi. Guðjón Arnar Kristjánsson formaður flokksins tekur leyfi frá þingstörfum næstu tvær vikur til að sinna kjördæmamálum og undirbúningi landsþings Frjálslynda flokksins sem haldið verður dagana 13. og 14. mars næstkomandi.
Ragnheiður er búsett á Akranesi. Hún er fædd á Bíldudal 8. október 1942. Eiginmaður hennar er Sölvi Pálsson skipstjóri. Ragnheiður og Sölvi eiga fjögur uppkomin börn. Ragnheiður var hreppsnefndarfulltrúi í Tálknafirði og síðan bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins á Akranesi í eitt kjörtímabil. Hún var formaður sjálfstæðiskvennafélagsins Báru á Akranesi, í stjórn og framkvæmdastjórn Landssambands sjálfstæðiskvenna.
Hún var varaþingmaður Borgaraflokksins í Reykjaneskjördæmi, formaður Landssambands heimavinnandi fólks, formaður Kvenfélags Akraness og formaður skólanefndar Fjölbrautaskóla Akraness.