Þingflokkar Samfylkingar, Vinstri grænna og Framsóknarflokksins telja að setja eigi reglur eða lög sem skuldbindi alþingismenn til að gefa upplýsingar um fjárhagslega hagsmuni sína og önnur hagsmunatengsl. Þar með er meirihluti Alþingis fylgjandi slíkum breytingum.
Vorið 2005 varð mikil umræða um hvort alþingismenn ættu að veita upplýsingar um eignir sínar og hagsmunatengsl. Framsóknarmenn biðu ekki eftir reglunum, heldur birtu tilteknar upplýsingar um fjárhag þingmanna á vef sínum.
Síðan hafa nokkrir nýir þingmenn tekið sæti á þingi fyrir Framsóknarflokkinn en af einhverjum orsökum, að öllum líkindum athugunarleysi, vantar nú þessar upplýsingar um tvo þingmenn af sjö, þ.e. Eygló Harðardóttur og Höskuld Þ. Þórhallsson.
Engar upplýsingar eru heldur um eignir og fjárhagsleg tengsl hins nýja formanns Framsóknarflokksins, Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, enda er hann ekki þingmaður. Í samtali við Morgunblaðið í gær sagði Sigmundur að hann myndi væntanlega birta sambærilegar upplýsingar um fjármál sín fyrir næstu kosningar.
Athygli hefur verið vakin á því í fjölmiðlum að sambýliskona Sigmundar, Anna Sigurlaug Pálsdóttir, greiddi ríflega 100 milljónir í fjármagnstekjuskatt vegna gjaldaársins 2007. Sigmundur sagðist ekki hafa viljað blanda fjármálum sambýliskonu sinnar inn í umræðu um sín fjármál. Þau Sigmundur og Anna Sigurlaug eru trúlofuð.
Í drögum forsætisnefndar, sem byggjast að mestu á reglum sem gilda í danska þinginu, er gert ráð fyrir að alþingismönnum verði í sjálfsvald sett hvort þeir veita þessar upplýsingar. Þingflokkur sjálfstæðismanna gerði fáar athugasemdir og tók fram að alþingismenn gætu ráðið því sjálfir hvort þeir veittu upplýsingar um fjárhag sinn. Athugasemdir VG lutu m.a. að því að þingmönnum yrði skylt að geta um fasteignir, aðrar en heimili og landeignir.