Segir afskipti forsetans af stjórnarmyndum opinbert leyndarmál

Björn Ingi Hrafnsson
Björn Ingi Hrafnsson Brynjar Gauti

Björn Ingi Hrafns­son, seg­ir á bloggvef sín­um að það sé op­in­bert leynd­ar­mál, að for­seti Íslands, Ólaf­ur Ragn­ar Gríms­son, tók mik­inn þátt í þeirri at­b­urðarás sem leiddi til falls rík­is­stjórn­ar Geirs H. Haar­de og mynd­un­ar fyrsta ráðuneyt­is Jó­hönnu Sig­urðardótt­ur.

„For­set­inn sló þannig nán­ast á putt­ana á Geir, þegar hann til­kynnti um að sam­starfi Sjálf­stæðis­flokks og Sam­fylk­ing­ar­inn­ar væri lokið en hann vildi ræða við for­menn flokk­anna um mynd­un þjóðstjórn­ar. Full­yrt er að for­set­inn hafi þá sagt for­sæt­is­ráðherr­an­um að þar sem hann nyti ekki leng­ur stuðnings meiri­hluta þings­ins, hefði hann ekki leng­ur neitt umboð til stjórn­ar­mynd­un­ar og ef ein­hver stjórn yrði mynduð, yrði það á ábyrgð og verksviði for­set­ans og ekki annarra!

Þetta telja sjálf­stæðis­menn til marks um að for­set­inn hafi fyr­ir löngu verið bú­inn að ákveða nýtt stjórn­ar­mynst­ur og gagn­rýna harðlega að hann hafi ekki eytt nein­um kröft­um í til­raun­ir til að mynda hefðbundna meiri­hluta­stjórn, eins og ætti þó alltaf að vera fyrsti kost­ur.

Fleira kem­ur svo til. Vitað er að for­set­inn gerði sig gild­andi í sam­töl­um við for­menn Sam­fylk­ing­ar, Vinstri grænna og Fram­sókn­ar­flokks alla dag­ana sem nýja minni­hluta­stjórn­in var í burðarliðnum. Aðrir þing­menn urðu ít­rekað vitni að sím­töl­um sem þurfti að sinna frá Bessa­stöðum, svo eng­um blöðum er um það að fletta, að for­set­inn tók sjálf­ur bein­an þátt í stjórn­ar­mynd­un­inni, ekki síst á loka­sprett­in­um þegar svo virt­ist sem snurða væri hlaup­inn á þráðinn og fram­sókn­ar­menn teldu sig þurfa út­færðar til­lög­ur um björg­un­araðgerðir, ættu þeir að lýsa því yfir að þeir verðu nýja stjórn van­trausti," seg­ir á vef Björns Inga.

mbl.is