Sigríður Á. Andersen héraðsdómslögmaður tekur þátt í prófkjöri sjálfstæðismanna í Reykjavík í næsta mánuði og mun sækjast eftir stuðningi flokksmanna í eitt af efstu sætum.
Sigríður er 37 ára Reykvíkingur og starfar við lögmennsku. Hún hefur gegnt ýmsum trúnaðarstörfum fyrir Sjálfstæðisflokkinn frá unga aldri, m.a. setið í miðstjórn flokksins og gegnt formennsku í einu af sjálfstæðisfélögunum í Reykjavík.
Sigríður skipaði 5. sæti á lista Sjálfstæðisflokksins í Reykjavíkurkjördæmi norður við kosningarnar árið 2007. Hún er nú 1. varaþingmaður flokksins í kjördæminu og hefur einu sinni tekið sæti á Alþingi, um miðjan október sl.
Eiginmaður Sigríðar er Glúmur Jón Björnsson efnafræðingur og eiga þau eina dóttur og von á annarri á næstu dögum.
Vefur Sigríðar Á. Andersen