Sigurður Kári Kristjánsson, alþingismaður, hefur ákveðið að bjóða sig fram í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík sem haldið verður dagana 13. og 14. mars næstkomandi vegna komandi Alþingiskosninga. Sigurður Kári sækist eftir forustusæti á lista Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík og óskar eftir stuðningi í 2.-3. sæti í prófkjörinu.
Sigurður Kári Kristjánsson er fæddur 9. maí 1973. Hann er lögfræðingur að mennt og útskrifaðist frá lagadeild Háskóla Íslands árið 1998. Hann stundaði jafnframt nám í lögfræði, einkum Evrópurétti, við Kaþólska háskólann í Leuven í Belgíu veturinn 1997. Frá útskrift starfaði Sigurður Kári sem lögmaður á lögmannsstofunni Lex þar til hann tók sæti á Alþingi auk þess sem hann var stundakennari við Iðnskólann í Reykjavík 2001-2002. Sigurður Kári aflaði sér málflutningsréttinda fyrir héraðsdómi árið 1999.
Sigurður Kári var kjörinn á Alþingi sem þingmaður Reykvíkinga árið 2003. Sigurður Kári hefur átt sæti í menntamálanefnd Alþingis frá árinu 2003 og verið formaður menntamálanefndar frá 2005-2009. Þá hefur Sigurður Kári átt sæti í allsherjarnefnd Alþingis frá 2003. Jafnframt sat Sigurður Kári í iðnaðarnefnd Alþingis á tímabilinu 2003-2007 og átti sæti í sérnefnd Alþingis um stjórnarskrármál 2004-2007 og frá árinu 2009.
Eiginkona Sigurðar Kára er Birna Bragadóttir, BA í félagsfræði, verkefnastjóri hjá Icelandair og MBA-nemi við Háskólann í Reykjavík. Fósturbörn hans eru tvö, Sindri 13 ára og Salka 5 ára.
Sigurður Kári er hvorki hluthafi í né situr í stjórnum fyrirtækja, að því er segir í tilkynningu.