Kolbrún Baldursdóttir, sálfræðingur og varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins býður sig fram í 4.-5. sæti í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík. Kolbrún hefur verið löggildur sálfræðingur frá 1992 og hlaut sérfræðileyfi Landlæknisembættisins í klínískri sálfræði 2008.
Kolbrún er fædd í Reykjavík 1959. Hún lauk stúdentsprófi frá Verzlunarskóla Íslands 1980 og BA prófi frá Háskóla Íslands 1986. Kolbrún lagði stund á framhaldsnám í sálfræði í Rhode Island fylki í Bandaríkjunum þaðan sem hún lauk tveimur Meistaragráðum á fimm ára tímabili.
Kolbrún hefur rekið sálfræðistofu og sinnt kennslu á grunn-, framhalds- og háskólastigi samhliða öðrum störfum frá árinu 1992. Hún starfaði um tveggja ára skeið hjá Fangelsismálastofnun ríkisins. Hún var yfirsálfræðingur á Stuðlum um árabil og í átta ár sálfræðingur í Barnavernd Kópavogsbæjar. Ásamt rekstri sálfræðistofunnar hefur hún verið undanfarin þrjú ár skólasálfræðingur í Áslandsskóla.
Kolbrún hefur átt sæti í Barnaverndarnefnd Reykjavíkur frá því í febrúar 2008. Hún hefur setið í ýmsum nefndum og stjórnum m.a. á vegum Sálfræðingafélags Íslands og Sjálfstæðisflokksins. Kolbrún var formaður Stéttarfélags sálfræðinga, hún hefur einnig átt sæti í stjórn BHM og í stjórn Endurmenntunarstofnunar. Kolbrún er varaformaður í stjórn Íbúasamtakanna Betra Breiðholt þar sem hún hefur átt sæti frá árinu 2006.