Útreikningar á heildaráti hrefnu á þorski og ýsu eru ekki komnir frá Hafrannsóknastofnuninni, segir í athugasemd frá Gísla A. Víkingssyni, hvalasérfræðingi á Hafrannsóknastofnun. Athugasemd Gísla fer hér á eftir:
„Föstudaginn 6. mars s.l. birtist frétt í Morgunblaðinu um rannsóknir Hafrannsóknastofnunarinnar á fæðu hrefnu undir fyrirsögninni „Hrefnan étur 300 þús. tonn af þorski og ýsu“. Þar er vitnað til fréttar á heimasíðu LÍÚ varðandi frumniðurstöður rannsókna á hlutfallslegri fæðusamsetningu hrefnu á landgrunnssvæðinu við Ísland sem kynntar voru á ráðstefnu Hafrannsóknastofnunarinnar í lok síðasta mánaðar.
Þar kom fram að hlutfallslegt vægi bolfisks í fæðunni hefur aukist verulega frá því sem áður var álitið, en jafnframt var lögð áhersla á að ekki væri að svo stöddu tímabært að kynna áætlanir á þyngd hverrar fæðutegundar á ársgrundvelli. Útreikningarnir á heildaráti hrefnu á þorski og ýsu eru því ekki frá Hafrannsóknastofnuninni komnir eins og haldið er fram í fréttinni. Þeir byggjast á einfaldri uppfærslu mats frá árinu 1997 á heildarafráni hrefnustofnsins við Ísland með hinum nýju hlutfallstölum.
Niðurstöður hrefnurannsókna undanfarinna ára hafa hins vegar sýnt fram á mikinn landfræðilegan breytileika í fæðusamsetningunni og miklar sveiflur í fjölda hrefna á landgrunnssvæðinu sem krefst sérstakrar skoðunar við. Það er því ljóst að raunhæft mat á afráni hrefnu á einstökum fæðutegundum krefst viðbótar-sýnatöku og talsvert flóknari útreikninga og er jafnframt bundið mikilli óvissu vegna óvenjulegra breytinga á fjölda hrefna og annarra þátta lífríkisins undanfarin ár.
Fyrirhugaðar eru talningar á hrefnu nú í sumar sem varpað geta ljósi á þennan breytileika. Lokaþáttur þessara rannsókna felst í líkanagerð þar sem tillit verður tekið til þessa breytileika og leitast við að meta þátt hrefnu í lífríkinu við landið og hugsanleg áhrif á aðra nytjastofna sjávar.“