Ekki mistök að verja stjórnina falli

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson mun beita sér fyrir því að bókhald …
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson mun beita sér fyrir því að bókhald Framsóknarflokksins verði opnað. mbl.is/Kristinn

Sig­mund­ur Davíð Gunn­laugs­son, formaður Fram­sókn­ar­flokks­ins, seg­ist ekki vera áhyggju­full­ur yfir fylgi Fram­sókn­ar­flokks­ins. Hann seg­ir að sú ákvörðun að verja rík­is­stjórn­ina falli hafi ekki verið mis­tök. Sig­mund­ur seg­ist ætla að beita sér fyr­ir því að bók­hald flokks­ins verði opnað.

„Þessi niðurstaða kem­ur mér tölu­vert á óvart en ég hef þó ekki sér­stak­ar áhyggj­ur því við ákváðum fyr­ir þónokkru síðan að elt­ast ekki við skoðanakann­an­ir held­ur halda okk­ar striki og ræða um mál­efn­in,“ seg­ir Sig­mund­ur um niður­stöður skoðana­könn­un­ar Capacent. Flokk­ur­inn mæl­ist nú með 9,8% fylgi á landsvísu og lækk­ar um 0,9 pró­sentu­stig frá síðustu könn­un.

Fórnuðu hags­mun­um flokks­ins 
Aðspurður hvort það hefðu verið mis­tök að verja rík­is­stjórn Sam­fylk­ing­ar og Vinstri grænna seg­ir Sig­mund­ur svo ekki vera. „Við rædd­um um það á nokkr­um þing­flokks­fund­um áður en þessi ákvörðun var tek­in að lík­legt væri að við vær­um að auka fylgi annarra flokka en okk­ar eig­in með þessu. Niðurstaðan var samt sú að við þyrft­um, til lengri tíma litið, að byggja end­ur­reisn flokks­ins á því að vera alltaf sjálf­um okk­ur sam­kvæm. Við töld­um að koma þyrfti á starf­hæfri rík­is­stjórn en ekki að hugsa fyrst og fremst um flokks­hags­muni,“ seg­ir Sig­mund­ur. Hann sagði að staðan hefði verið met­in þannig að það yrði metið flokkn­um til fram­drátt­ar í framtíðinni að „vera hrein­skil­inn.“

Fram­sókn dansi á sömu línu og stjórn­ar­flokk­arn­ir
„Það hafa marg­ir reynt að sann­færa mig um það að Fram­sókn­ar­flokk­ur­inn ætti að tala á sömu nót­um og stjórn­ar­flokk­arn­ir. Það er segja að hér sé allt á réttri leið því það væri lík­legra til fylgisaukn­ing­ar. Þá gæt­um við þakkað okk­ur fyr­ir að hafa varið stjórn­ina van­trausti. Við mun­um fylgja þeirri stefnu sem við höf­um markað að blekkja aldrei fólk og við telj­um að hér sé veru­leg hætta á áfram­hald­andi hruni efna­hags­lífs­ins og það þurfi rót­tæk­ar aðgerðir til þess að bregðast við því,“ seg­ir Sig­mund­ur.


Sig­mund­ur seg­ir að Fram­sókn­ar­flokk­ur­inn beri vissu­lega sína ábyrgð vegna tólf ára stjórn­ar­setu með Sjálf­stæðis­flokkn­um. „Þó Fram­sókn hafi gert ein­hver mis­tök á tólf ára tíma­billi eru þau þó lít­il miðað við hið full­komna klúður sem síðustu rík­is­stjórn tókst að gera á tólf mánuðum,“ seg­ir Sig­mund­ur.

Tengsl­in við auðmenn slit­in
Aðspurður hvort hann muni beita sér fyr­ir því að bók­hald Fram­sókn­ar­flokks­ins verði opnað seg­ir Sig­mund­ur að það hafi verið kannað. „Ég bað um að það yrði kannað hvort það væri hægt. Það voru ein­hverj­ar efa­semd­ir um hvort það væri leyfi­legt vegna þess að þeir sem veittu styrk­ina hefðu ekki getað vænst þess að upp­lýst yrði um þá. Það er al­veg ljóst að það eru eng­ar stór­ar upp­hæðir og ég hef beðið um að birt verði eins mikið [af upp­lýs­ing­um] og hægt er,“ seg­ir Sig­mund­ur. Hann seg­ir að það hafi verið rík krafa grasrót­ar­inn­ar í Fram­sókn­ar­flokkn­um á síðasta flokksþingi að slíta öll tengsl við auðmenn. „Gras­rót­in gerði flokkn­um þar al­veg ljóst að slíta þyrfti öll slík tengsl,“ seg­ir Sig­mund­ur.

mbl.is