Tilraunir til að ná sáttum í Alþjóðahvalveiðiráðinu milli hvalveiðiþjóða og andstæðinga hvalveiða virðast hafa farið út um þúfur. Segir breska ríkisútvarpið BBC, að engar líkur séu á því, að slíkt samkomulag náist á fundi hvalveiðiráðsins á Madeira í júní.
Viðræður hafa staðið yfir frá því á ársfundi ráðsins í fyrra en BBC segist nú hafa séð uppkast að skýrslu um viðræðurnar þar sem komi fram, að þær hafi ekki skilað árangri.
Fréttastofan hefur eftir heimildarmönnum, að ástæðan sé sú að Japanar hafi ekki viljað draga eins mikið úr vísindaveiðum sínum í Suðurhöfum og krafist var.
Lagt hafði verið til, að Japanar drægju úr Suðurhafaveiðunum smátt og smátt á næstu árum gegn því að þeir fengju smávægilegan strandveiðikvóta. En heimildarmaður BBC segir, að á fundi í San Francisco í Bandaríkjunum í apríl hafi Japanar boðist til að minnka hrefnukvótann í Suðurhöfum í 650 dýr, eða 29 færri en veidd voru á síðustu vertíð. Þetta hafi verið dropinn sem fyllti mælinn.