Segja hrefnur hafi verið veiddar nálægt hvalaskoðunarslóð

Jóhanna ÁR með hrefnu á síðunni.
Jóhanna ÁR með hrefnu á síðunni. mbl.is/Árni Sæberg

Þrjár hrefn­ur veidd­ust í Faxa­flóa í gær og hafa þá sam­tals veiðst sjö dýr frá því veiðar hóf­ust í maí. Á heimasíðu Fé­lags hrefnu­veiðimanna seg­ir, að báts­menn á Jó­hönnu ÁR hafi verið við veiðar mjög ut­ar­lega í Faxa­fló­an­um í gær.

Þessu mót­mæla Hvala­skoðun­ar­sam­tök Íslands og segja að í hvala­skoðun­ar­ferð síðdeg­is í gær hafi sést til Jó­hönnu að veiðum í um 16 mílna fjar­lægð frá Reykja­vík ná­lægt hefðbund­inni hvala­skoðun­ar­slóð.

Í yf­ir­lýs­ingu frá Hvala­skoðun­ar­sam­tök­un­um seg­ir, að í hvala­skoðun­ar­ferð sem far­in var klukk­an 17 í gær frá Reykja­vík­ur­höfn og stóð til kl. 21 hafi sést til Jó­hönnu ÁR að veiðum í um 16 mílna fjar­lægð frá Reykja­vík. Það geti ekki tal­ist ut­ar­lega í fló­an­um og er reynd­ar mjög ná­lægt hefðbund­inni hvala­skoðun­ar­slóð.

Þá segja sam­tök­in, að hvala­skoðun­ar­bát­ar, sem gera út frá Reykja­vík, hafi síðustu vik­ur átt í erfiðleik­um með að finna hrefn­ur á hefðbundn­um hvala­skoðun­ar­svæðum og því þurft að leita utar í fló­ann þar sem Jó­hanna hafi verið á veiðum.

„Hvala­skoðun­ar­sam­tök Íslands ít­reka að veiðar og hvala­skoðun geta ekki farið sam­an og að leyfa veiðar í svo mik­illi ná­lægð við svæðin eins og raun ber vitni er fás­inna, nema að til­gang­ur­inn sé að gera útaf við hvala­skoðun á Íslandi. Þetta eru jú sömu dýr­in sem synda í sjón­um, á milli svæða hvala­skoðunar og veiða. Þessi dýr eru grund­völl­ur fyr­ir því að ferðaþjón­ustu­fyr­ir­tæk­in sem bjóða upp á hvala­skoðun geti haldið úti rekstri," seg­ir í yf­ir­lýs­ingu sam­tak­anna.

Á heimasíðu Fé­lags hrefnu­veiðimanna seg­ir, að áætlað sé að hefja vinnslu á kjöt­inu í dag. Veiðar hafi gengið von­um fram­ar fyrstu dag­ana í sum­ar og nýr bát­ur komið mjög vel út.

mbl.is

Bloggað um frétt­ina