Áströlsk stjórnvöld hótuðu í gær Japönum lögsókn ef þeir hætta ekki umdeildum vísindaveiðum á hval í Suðurhöfum. Stephen Smith, utanríkisráðherra Ástralíu, sagði að málshöfðun væri enn möguleg ef Japanir létu ekki undan kröfum um að hætta veiðunum.
„Ef menn meta það svo, að ekki verði hægt að komast lengra eftir diplómatískum leiðum þá höldum við opnum þeim möguleika að höfða mál fyrir alþjóðlegum dómstóli," sagði Smith við Sky fréttastofuna.
Hann bætti við, að slíkt mál kynni að verða höfðað fyrir Alþjóðadómstólnum eða Hafréttardómstólnum.
Japanar hafa veitt allt að 850 hrefnur árlega í vísindaskyni þrátt fyrir harða andstöðu Ástrala og Nýsjálendinga sem telja enga þörf á að drepa hvali til að safna vísindalegum upplýsingum um hátterni þeirra.