Japönsk stjórnvöld hafa hafnað málamiðlunartillögu um hvalveiðar, sem formaður og varaformaður Alþjóðahvalveiðiráðsins lögðu fram í síðustu viku. Í tillögunni er gert ráð fyrir að Japanar dragi verulega úr veiðum í Suðurhöfum en fái þess í stað atvinnukvóta þar og í Kyrrahafi.
„Japanar fagna tillögu sem gerir ráð fyrir að við getum haldið áfram strandveiðum á hval," hefur ástralska sjónvarpsstöðin ABC eftir Hirotaka Akamatsu, sjávarútvegsráðherra Japans.
„En Japan getur ekki fallist á niðurskurðinn á hvalveiðunum í Suðurhöfum... hann er of mikill."
Tillagan felur í sér að hvalveiðar Japana dragast saman um 75% á næstu 5 árum í Suðurhöfum en á móti fá þeir kvóta í Kyrrahafi. Þá er gert ráð fyrir að Íslendingar og Norðmenn fái að halda áfram atvinnuveiðum í að minnsta kosti næstu 10 ár.