Sjávarútvegsráðuneytið mun leggja til við sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd Alþingis að fyrirhugaðar lagabreytingar á hvalveiðum stofni ekki vertíðinni næsta sumar í óvissu.
„Hugsanlega þarf að gera breytingar á frumvarpinu þannig að þeir sem veiða hval missi ekki leyfi sín á miðri vertíð, en á því á þó ekki að vera nein hætta ef menn eru nú þegar með sín mál í lagi,“ sagði Jóhann Guðmundsson, aðstoðarmaður sjávarútvegsráðherra, í gær.
„Eftir sem áður er gert ráð fyrir að sérstakt veiðigjald verði innheimt í ríkissjóð og til að það verði heimilt þarf að samþykkja þessi lög og gefa út ný leyfi. Það er alveg á hreinu að ef það væri ætlunin að banna hvalveiðar þá yrði það ekki gert á þennan hátt,“ sagði Jóhann. Hann áréttaði að málið væri nú í meðförum þingsins.
Sjá nánar um þetta mál í Morgunblaðinu í dag.