Stjórnarformaður Alþjóðahvalveiðiráðsins, Christian Maquieira, mun ekki mæta á ársfund ráðsins vegna veikinda. Er þetta talið geta haft áhrif á framgang tillögu sem hann kynnti í apríl um að heimila eigi hvalveiðar í atvinnuskyni með ákveðnum takmörkunum.
Ef það verður samþykkt þýðir það endalok 25 ára gamals banns við hvalveiðum í atvinnuskyni.
Maquieira lagði til að veiðar í atvinnuskyni yrðu heimilaðar í tíu ár. Talið er að Japanir, Norðmenn og Íslendingar veiði um tvö þúsund hvali ár hvert.
Fundur hvalveiðiráðsins verður haldinn í Agadir í Marokkó og hefst hann í næstu viku. Í stað Maquieira mun aðstoðarstjórnarformaður ráðsins, Anthony Liverpool, leggja tillöguna formlega fram en hann kom að gerð hennar.
Ekki hefur verið gefið upp hvaða veikindi hrjá formanninn sem er frá Chile.