Heimdallur, félag ungra sjálfstæðismanna í Reykjavík, telur það fagnaðarefni að hvalveiðar séu hafnar á þessu ári. Þetta kemur fram í ályktun sem stjórn félagsins hefur sent frá sér til fjölmiðla.
„Veiðarnar skapa vinnu fyrir marga og eiga fullan rétt á sér, enda eru þær sjálfbærar og ganga ekki nærri hvalastofninum. Engin vísindaleg rök mæla gegn veiðunum.
Sú gagnrýni sem sett er fram af Greenpeace og annarra andstæðinga hvalveiða, um að þær séu neikvæðar fyrir ímynd landsins, á ekki við rök að styðjast. Hvalveiðar, ýmist í vísinda- eða atvinnuskyni, hafa farið fram við Ísland frá árinu 2003 og hefur straumur ferðamanna til landsins vaxið jafnt og þétt á þessum tíma, þótt hann hafi minnkað í ár af öðrum ástæðum. Því er brýnt að stjórnvöld tali út á við fyrir skynsamlegum veiðum en láti ekki röksemdir, sem ekki standast skoðun, hrekja sig af leið," segir ennfremur í ályktuninni.