Konurnar sem leitað hafa skjóls í Konukoti eru þegar orðnar fleiri í ár en allt árið 2008 er þær voru flestar.
66 konur á aldrinum 19-64 ára hafa leitað athvarfs í Kotinu frá áramótum en það opnaði fyrst dyrnar fyrir heimilislausum konum árið 2004. 23 þeirra voru að koma þangað í fyrsta sinn. Þá hefur samsetning hópsins sem sækir í athvarfið breyst, konurnar eru yngri en áður og fleiri þeirra eru sprautufíklar.
„Við merkjum fjölgun sprautunotenda í gestahópi Konukots og álítum að ástæðan geti annars vegar verið að konur þekkja orðið betur til athvarfsins og hins vegar einfaldlega að neysla efna sem kalla á sprautunotkun sé almennt að aukast,“ segir Kristín Helga Halldórsdóttir, verkefnastjóri hjá Reykjavíkurdeild Rauða krossins sem rekur Konukot, í Morgunblaðinu í dag.