Iceland Airwaves hefst með formlegum hætti í dag. Hátíðin hefur aldrei verið stærri, en auk helstu sveita íslenska tónlistargeirans munu erlendir listamenn á borð við Robyn, Hurts og Bombay Bicycle Club leggja leið sína á klakann.
Egill Tómasson er einn af skipuleggjendum hátíðarinnar. Hann segist ekki enn hafa þurft að koma til móts við undarlegar kröfur frá erlendum listamönnum sem eru á leið til landsins. „Það voru nú einhverjir sem báðu um svartar nærbuxur baksviðs, en að öðru leyti er þetta aðallega búið að snúast um hljóðfæri og græjumál,“ segir Egill.
Í nýjasta tölublaði Monitor, sem kemur út á morgun, verður ítarleg úttekt á Airwaves-hátíðinni. Alla Airwaves-helgina verður Monitor svo með ljósmynda-, myndbands- og textauppfærslur af viðburðum hátíðarinnar á mbl.is.