Yfir 2.300 erlendir gestir á Iceland Airwaves

Iceland Airwaves 2010
Iceland Airwaves 2010

 Iceland Airwaves tónlistarhátíðin er að hefjast en nærri 300 listamenn, taka þátt í 280 tónleikum á hátíðinni í ár. Yfir 2300 erlendir gestir heimsækja hátíðina, þar af um fjögur hundruð blaðamenn, segir í tilkynningu frá aðstandendum hátíðarinnar.

Fyrir nokkrum árum var gerð rannsókn á því hverjar gjaldeyristekjur þjóðarinnar af hátíðinni væru. Á þeim tíma námu þær um 350 milljónir króna en þá voru gestirnir 1700 og dagarnir fjórir en ekki fimm eins og í dag.

Eyðsla erlendra gesta 760 milljónir króna

„Varlega áætlað má því gera ráð fyrir að erlendir gestir eyði 760 m.kr. þessa daga í október og þá eru flug ótalin. Íslendingar eyða öðru eins og er veltan vegna hátíðarinnar vart undir 1500 m.kr. Virðisaukatekjur ríkissjóðs og aðrar skatttekjur eru á bilinu 150 til 300 m.kr.

Þetta eru beinharðir peningar og er þá ótalin sú landkynning sem hátíðin hefur stuðlað að sl. 11 ár. Orðspor hátíðarinnar hefur borist um allan heim sem sést best af fjölmiðlaumfjöllun í  Japan,  Brasilíu og alls staðar þar á milli. Framlög ríkisins í tónlistarsjóð, listamannalaun og o.fl. er fjármagnað með tekjum af Iceland Airwaves," segir í tilkynningu frá Iceland Airwaves.

Veltan í skapandi greinum 80 milljarðar króna

Þar kemur einnig fram að velta í skapandi greinum er  um 80 milljarðar króna samkvæmt bráðabirgðaniðurstöðum kortlagningarverkefnis sem nú er í gangi.

„Til samanburðar er velta  íslenska landbúnaðarins um 25 milljarðar og kerfið nýtur um 10 milljarða niðurgreiðslan  úr ríkissjóði.  Menning og listir og þá ekki síst poppkúltúrinn er alvöru atvinnugrein og þjóðin hefur í raun öðlast sjálfsvirðingu með útrás Bjarkar, Sigur Rósar, Iceland Airwaves og þess mikla fjölda listamanna sem eru á ferðalagi um heiminn á hverjum tíma. Nágrannaþjóðirnar öfunda okkur af þeim frábæru listamönnum en það virðist vera erfitt að vera spámaður í eigin föðurlandi," segir ennfremur.



mbl.is