Færeyskir rokkarar biðja Jóhönnu afsökunar

Færeyska hljómsveitin 200 á tónleikum.
Færeyska hljómsveitin 200 á tónleikum.

Færeyska pönkhljómsveitin 200 hefur beðið Jóhönnu Sigurðardóttur afsökunar á þeim viðbrögðum sem hún fékk er hún fór í opinbera heimsókn til Færeyja nýverið. Sveitin, sem kom fram á Iceland Airwaves tónlistarhátíðinni, bauð Jóhönnu og eiginkonu hennar að koma á tónleika sveitarinnar. Bloggarinn og tónlistarspekingurinn Jens Guð greinir frá þessu.

Þar birtir hann bréf sem hann segir að hafi verið sent aðstoðarmanni forsætisráðherra, en þar segir m.a. að í kjölfarið á umdeildri móttöku sem Jóhanna fékk í Færeyjum fyrr á árinu vilji 200 bera í bætifláka fyrir það.

„Þó ekki hafi borið á neinu á fréttamannafundi Jóhönnu Sigurðardóttur í Færeyjum kom fram að hún mætti kuldalegra viðmóti af hálfu einstakra stjórnmálamanna okkar en hún vildi láta í veðri vaka. Þetta kom ennþá betur fram í samtölum hennar við íslenska fjölmiðla.

Vegna þessa hefur 200 tekið að sér að biðjast fyrirgefningar. Vegna fólksins, landsins og þjóðarinnar. Skýrt og skorinort.

200 heitir á sendiherra Færeyja í Reykjavík að koma þeim boðum á framfæri við íslenska forsætisráðherrann að hún og kona hennar séu hjartanlega velkomnar á hljómleika 200 í höfuðborg Íslands á laugardagskvöldinu - og ef tími og aðstæður leyfa að setjast að snæðingi með hljómsveitinni á meðan hún dvelur á Íslandi.

Jafnframt býður 200 Jóhönnu um að veita viðtöku Riddarakrossi hljómsveitarinnar. Fyrri Riddarakrosshafar eru Magni Laksáfoss, Hergeir Staksberg, Annar Kristín Thomsen, Felix van der Berg og Jóhannes Patursson,“ segir í yfirlýsingu, sem hefur verið birt á færeysku á Facebook-síðu 200.

Ekki fylgir sögunni hvort forsætisráðherra hafi heiðrað rokkarana með nærveru sinni.

Bloggsíða Jens Guð.

mbl.is