Lögmenn Birgittu Jónsdóttur, þingmanns Hreyfingarinnar, undirbúa nú áfrýjun í kjölfar dóms í svonefndu Twitter-máli sem féll síðasta föstudag.
Samkvæmt niðurstöðu dómstóls í Virginíuríki í Bandaríkjunum ber forsvarsmönnum samskiptavefjarins Twitter að afhenda yfirvöldum upplýsingar um Twitter-notkun Birgittu auk tveggja annarra Twitter-notenda í tengslum við rannsókn á WikiLeaks.
„Samkvæmt dómnum hefur enginn notandi samskiptasíðna í raun rétt til að krefjast þess að upplýsingar hans séu ekki afhentar,“ segir Birgitta í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag. Fólk samþykki ýmiss konar skilmála með því að skrá sig inn á samskiptasíður á borð við Facebook og Twitter. Fæstir geri sér fyllilega grein fyrir hvaða afleiðingar það geti haft.„Umræddar upplýsingar eru margs konar bakgrunnsupplýsingar svo sem ip-tala, símanúmer, tölvupóstur, kreditkortaupplýsingar og fleira,“ segir Birgitta.
„Í sjálfu sér hef ég ekkert að fela en þetta er fyrst og fremst prinsippmál og ég mun taka slaginn alveg til enda,“ segir Birgitta.