Fréttaskýring: Ná þyrfti til fleiri virkra sprautufíkla

Heimilislausir sprautufíklar finna sér skjól á víðavangi þar sem þeir …
Heimilislausir sprautufíklar finna sér skjól á víðavangi þar sem þeir geta sprautað sig með fíkniefnum. Þeir hirða ekki alltaf upp eftir sig.

Í tvígang á stuttum tíma hefur komið fyrir, að börn fundu, könnuðu og stungu sig á sprautunál á víðavangi. Þegar upp koma slík mál og á svo skömmum tíma vakna eðlilega spurningar um hvað sé eiginlega á seyði í þjóðfélaginu, hvort sprautufíklum hafi fjölgað og hvort kreppunni sé um að kenna. Burtséð frá svörum við þeim spurningum er víst að vandamálinu verður ekki sópað undir teppið.

Samkvæmt upplýsingum sem finna má á vefsvæði SÁÁ er hópur sprautufíkla á Íslandi, sem sprauta sig reglulega í æð, orðinn nokkuð stór. Horfurnar voru einna verstar á árunum 1998-2005 en þá fór saman hratt vaxandi nýgengi og aukinn fjöldi sprautufíkla á Vogi. Þó svo að fjöldi þeirra sem sprauta sig í æð sé enn að aukast hefur nýgengið minnkað og tilraunaneytendum fækkað. Því eru vísbendingar um að jafnvægi geti komist á og sprautufíklum í framhaldinu fækkað.

Ekki þykir ofmat að á Íslandi séu um 700 virkir sprautufíklar, og ætla má að rúmlega 300 virkir sprautufíklar, flestir á Reykjavíkursvæðinu, séu sýktir af lifrarbólgu C. Þór Gíslason, verkefnastjóri Frú Ragnheiðar, segir að samkvæmt gögnum frá SÁÁ noti um 250 einstaklingar reglulega.

Heimilislausir sprauta sig úti

Frú Ragnheiður er verkefni sem byggist á svonefndri skaðaminnkun. Tilgangurinn er að ná til jaðarhópa og bjóða þeim þjónustu án fordóma eða kvaða í þeirra nærumhverfi. Markmið verkefnisins er að draga úr skaðsemi lifnaðarhátta jaðarhópa, t.d. sýkingum í sárum og útbreiðslu lifrarbólgu C og HIV, með því að auðvelda þeim aðgengi að sárameðferð, hreinum nálum og sprautum og almennri fræðslu.

Meðal þess sem boðið er upp á, er að einstaklingar sem nota sprautubúnað geta komið með notaðar nálar og sprautur og fengið hrein áhöld í staðinn. Einnig eru afhentar nálafötur og smærri nálabox til að geyma notuð sprautuáhöld.

Þór segir að um sextíu einstaklingar komi reglulega til Frú Ragnheiðar og því er ljóst að nokkuð stór hópur er eftir sem ná þarf til. „Þetta er náttúrlega hópur sem erfitt er að ná til, hann er nokkuð falinn og það eru fordómar gagnvart honum. Að auki er hópurinn sjálfur með mikla fordóma gagnvart sjálfum sér og sennilega er það erfiðasti hjallinn að yfirstíga. Það er erfitt fyrir viðkomandi að koma til okkar og viðurkenna að hann eigi við þennan vanda að etja.“

Dágóður fjöldi þessa fólks sem þarf að ná til er heimilislaus. „Það er kannski höfuðástæðan fyrir því að þau eru að sprauta sig á víðavangi. Þá leita þau gjarnan í skjól, s.s. inni á salernum bensínstöðva, á leikvöllum þar sem einhver hús eru eða inn í húsaskot. Og það vill vera, líkt og með annars konar sóðaskap, að fólk hendir ruslinu sínu. Því miður þá eru ekki viðeigandi ílát á almannafæri til að losa sig við þetta.“

Þór segir að ekki sé hægt að sópa vandamálinu undir teppið, þá verði það aðeins alvarlegra. Frú Ragnheiður sé fyrsta skrefið að heildstæðu ferli og yfirvöldum hefur verið bent á, að aðstöðu vanti fyrir heimilislausa sprautufíkla til að sprauta sig undir eftirliti, þannig að þeir skilji ekkert eftir sig. Í því sambandi bendir Þór á hvernig þessu er farið, t.a.m. í Hollandi, á Ítalíu og Frakklandi.

LÍTIL HÆTTA Á HIV

Áhættan er lifrarbólgur

Komi það upp að barn stingi sig á sprautunál á víðavangi er ráðlagt að farið sé með það á bráðamóttöku Barnaspítala Hringsins. Þar er tekin blóðprufa og barnið bólusett gegn lifrarbólgu B, en það dregur verulega úr líkum á smiti.

Að sögn Þórólfs Guðnasonar, yfirlæknis á sóttvarnasviði Landlæknis, er áhættan sem fylgir slíkum stungum lifrarbólgur B og C og svo HIV-sýking. Bæði er hægt að bólusetja gegn lifrarbólgu B og einnig gefa mótefni ef mikil hætta er á smiti. Ekkert er hins vegar hægt að gera við lifrarbólgu C og mjög litlar líkur eru á HIV-smiti af nál á víðavangi, því veiran drepst yfirleitt. Sé hins vegar mikil hætta á HIV-smiti er hægt að gefa lyf í einhvern tíma sem koma á í veg fyrir sýkingu. Sjaldnast er þó þörf á því, þegar um stungu af sprautunál á víðavangi er að ræða.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: