5 leiðir til að nota Epsom-salt

Epsom-salt er hægt að nota í baðið, taka það inn …
Epsom-salt er hægt að nota í baðið, taka það inn og skrúbba líkamann upp úr því. mbl.is/Eggert

Epsom-saltið er ríkt af magnesíum. Í því er eitt veigamesta snefilefnið sem frumur líkamans þurfa nauðsynlega á að halda til að starfa eðlilega. Í Epsom-salti er að finna mikið af magnesíum en það skiptir mjög miklu máli í starfsemi ensími líkamans sem eru yfir 300. 

Þorbjörg Hafsteinsdóttir, næringarþerapisti og hjúkrunarfræðingur, mælir sérstaklega með Epsom-saltinu í bók sinni 10 árum yngri á 10 vikum. Þar kemur fram að það sé mjög hreinsandi að blanda Epsom-salti út í heitt vatn, sítrónusafa og ólífuolíu. Drykkurinn er látinn kólna örlítið áður en hann er drukkinn. Eins og fyrr segir er drykkurinn mjög hreinsandi og skiptir máli að vera heima við þann daginn.

Salt í baðið

Það jafnast fátt á við Epsom-salt bað. Byrjið á því að þurrbursta húðina og láta mjög heitt vatn renna í baðið. Setjið tvo bolla af Epsom-salti út í baðvatnið. Liggið í baðinu í allavega 20 mínútur og prófið að hugsa ekki um neitt á meðan, bara njóta. Epsom-saltbaðið eflir upptöku á magnesíum og styrkir þannig líkamsstarfsemina og húðin verður mjúk.

Fyrir húðina

Ef þú vilt að húðin verði silkimjúk og fersk skaltu blanda saman 1 dl af Epsom-salti, ½ dl af ólífuolíu og 2 tsk. af ilmkjarnaolíu, til dæmis með sítrónu. Hrærðu efnin saman í skál og skrúbbaðu húðina upp úr efninu. Nuddaðu vel öll svæði líkamans. Gott er að gera þetta í baðkerinu og láta svo renna í heitt bað og liggja í því. Húðin verður eins og á ungbarni á eftir.

Unglegra útlit

Langar þig að verða eins og 12 ára í framan? Settu eina tsk. af Epsom-salti út í hreinsikremið þitt og nuddaðu vel inn í húðina. Það gefur húðinni aukinn ljóma og hreinsar vel óhreinindi í burtu. Skolaðu andlitið vel upp úr köldu vatni á eftir.

Fyrir fæturna

Settu ½ bolla af Epsom-salti í bala og láttu renna volgt vatn í hann. Baðaðu fæturna upp úr þessari dásemd í 15 mínútur og skolaðu svo. Þetta er sérstaklega gott fyrir gigtveika og þá sem þjást af miklum bólgum í líkamanum. Ef þú ert með sár á fótunum skaltu láta júgursmyrsl á sárin svo þig svíði ekki undan saltinu.

Það er nauðsynlegt að eiga bursta til að þurrbursta húðina.
Það er nauðsynlegt að eiga bursta til að þurrbursta húðina. Eggert Jóhannesson
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: