Alþingi samþykkti á laugardagskvöld hið svonefnda minna frumvarp um fiskveiðistjórnun og miðað við óbreyttar forsendur hækkar veiðigjald útgerðarinnar um einn milljarð á næsta fiskveiðiári. Stóra frumvarpinu var frestað.
„Frestur er á illu bestur og skynsamlegast hefði verið að fresta báðum frumvörpunum. Við verðum að vona að nú sýni menn skynsemi og vandi meira til verka,“ segir Vilmundur Jósefsson, formaður SA.
Aðspurður segir hann einnig að breytingar sem gerðar voru á minna frumvarpinu auki líkur á því að samtökin staðfesti kjarasamninga 22. júní. Adolf Guðmundsson, formaður LÍÚ, segir að fresta hefði átt báðum frumvörpum. „Við erum ekkert sátt við þetta. Vinnubrögðin sem höfð voru uppi eru algjörlega ótæk. Þingið logaði í deilum og það hefði þurft að vísa málinu til frekari vinnslu.“