„Við fórum bara yfir þessa skýrslu með hagfræðingunum og þeir voru spurðir spjörunum úr eins og sagt er,“ segir Lilja Rafney Magnúsdóttir, formaður sjávarútvegsnefndar Alþingis og þingmaður vinstri grænna.
Nefndin fundaði í gær að ósk fulltrúa sjálfstæðismanna og framsóknarmanna um greinargerð sérfræðingahóps sjávarútvegsráðuneytisins sem birt var á dögunum um hagræn áhrif frumvarps til nýrra laga um stjórn fiskveiða, en í henni kemur fram hörð gagnrýni á frumvarpið.
Á fundi nefndarinnar var samþykkt samhljóða tillaga Lilju og Ólínu Þorvarðardóttur, þingmanns Samfylkingarinnar og varaformanns nefndarinnar, um að óskað yrði eftir því við sjávarútvegsráðuneytið að gerð yrði úttekt á samfélagslegum og hagrænum áhrifum núverandi fiskveiðistjórnunarkerfis á íbúa og byggðaþróun á Íslandi auk annarra samfélagslegra þátta eins og atvinnuöryggis, jafnræðis- og mannréttindasjónarmiða.
Aðspurð segir Lilja að tillagan sé ekki hugsuð til höfuðs greinargerð sérfræðingahópsins heldur sé um að ræða þætti sem æskilegt sé að teknir verði saman í tengslum við umræðuna um breytt fiskveiðistjórnunarkerfi.