Ferja bílaleigubíla yfir Múlakvísl

Bíll björgunarsveitarinnar Víkverji ferjar hér fyrsta bílaleigubílinn yfir Múlakvísl
Bíll björgunarsveitarinnar Víkverji ferjar hér fyrsta bílaleigubílinn yfir Múlakvísl mbl.is/Eggert Jóhannesson

Byrjað var að ferja bíla yfir Múlakvísl í dag en það er gert að frumkvæði nokkurra bílaleiga. Að sögn Vilhjálms Sigurðssonar, hjá bílaleigunni Avis, tóku bílaleigurnar sig saman um að leigja stóran bíl af björgunarsveitinni Víkverji í Vík í Mýrdal sem flytur bílaleigubíla yfir Múlakvísl.

Fyrsti bíllinn var ferjaður yfir um fimmleytið í dag en stefnt er að því að lengja björgunarsveitarbílinn í nótt svo hægt verði að flytja tvo bíla yfir ána í einu.

Vilhjálmur segir að fjölga þyrfti stórum bílum sem gætu flutt bíla yfir ána þar sem mikill þrýstingur sé á það frá útlendum ferðaskrifstofum að þeirra ferðamenn komist leiðar sinnar á ferð sinni um Ísland. 

Hann segir að það hafi hins vegar valdið vonbrigðum meðal starfsmanna bílaleiga hversu hægt framkvæmdir ganga við Múlakvísl þrátt fyrir fögur fyrirheit um slíkt.

mbl.is