Fyrsta ferðin gekk vel

Ferðamenn stíga upp í trukkinn, sem ferjaði þá yfir Múlakvísl.
Ferðamenn stíga upp í trukkinn, sem ferjaði þá yfir Múlakvísl. mbl.is/Eggert

Stór sérútbúinn trukkur á vegum ferðaskrifstofunnar Viking Travel er búinn að fara eina ferð með ferðamenn yfir Múlakvísl og gekk allt að óskum. Ferðamennirnir voru afar ánægðir þegar þeir stigu út úr bílnum á vesturbakka Múlakvíslar.

Verið er að undirbúa að fara fyrstu ferðina með bíl á vörubílspalli yfir ána. Fjölmenni er við ána en rútur með ferðamenn komu að ánni beggja vegna fyrr í dag. Þá hafa heimamenn einnig fylgst með aðgerðunum.

Trukkurinn, sem er afar öflugur, vegur 14 tonn og tekur 40 farþega, fór  hægt en örugglega yfir Múlakvísl. Áin er ekki mjög djúp en á botningum eru pyttir og  talsverð sandbleyta. Sérútbúnir jeppar hafa einnig farið yfir ána í dag. 

Þegar verið var að finna bestu leiðina yfir ána í morgun festist jeppi Viking Travel í ánni og þurfti að draga hann upp en síðan fannst betra vað.

Á svæðið er einnig kominn trukkur með símastaura og þar er einnig sérstök vél til að reka þá niður, kranabíll og fleiri vinnuvélar, sem notaðar verða til að smíða bráðabirgðabrú yfir Múlakvísl.  Þá stendur til að sprengja klett við bakkann. 

Trukkurinn, sem notaður er til að flytja ferðamenn yfir Múlakvísl.
Trukkurinn, sem notaður er til að flytja ferðamenn yfir Múlakvísl. mbl.is/Eggert
mbl.is