Mikill þrýstingur er nú á Vegagerðina að koma samgöngum yfir Múlakvísl í fyrra horf eftir að brúnni yfir ána skolaði burt í hlaupi á laugardag og þjóðvegurinn rofnaði. Hafa sveitarstjórnir í Mýrdals- og Skaftárhreppum meðal annars krafist þess að þegar verði búið að opna fyrir umferð um næstu helgi og ferðaþjónustufyrirtæki setja fram skýlausa kröfu um að þjóðvegurinn verði opnaður við fyrsta tækifæri. Er það ekki nema von enda eru miklir hagsmunir í húfi að hægt sé að koma ferðamönnum snurðulaust á milli staða á þessum háannatíma í ferðaþjónustunni. Í gær var þó byrjað að selflytja fólk, bifreiðar og varning yfir ána með stórum rútum.
Vegagerðin hefur vissa viðbragðsáætlun til taks þegar hamfarir af þessu tagi ríða yfir til þess að koma samgöngum í samt lag sem allra fyrst. Þannig er vinna þegar hafin við að gera bráðabrigðabrú yfir ána og ætti hún að verða tilbúin á tveimur til þremur vikum.
Gunnar Gunnarsson, aðstoðarvegamálastjóri, segir að Vegagerðin hafi tvo brúarvinnuflokka hokna af reynslu til taks til að mæta áföllum sem þessum. Þeir hafi báðir verið á leið á staðinn í gær til að hefja störf. Annar hópurinn hafi verið að byrja í fjögurra vikna fríi eftir að hafa verið að störfum við Haffjarðará. Hann hafi hins vegar verið kallaður strax á staðinn og mætt um hádegi í gær.
„Okkar fyrsta verk er að kalla menn til. Þeir voru mættir strax á sunnudag austur á svæðið og mátu aðstæður. Okkar verkfræðingar voru tilbúnir með fyrstu grunnteikningarnar að bráðabrigðabrú strax þá,“ segir Gunnar.
Þá séu til reiðu efnislagerar sem næst þeim stöðum þar sem líklegast er að svona atburðir geti gerst svo hægt sé að ráðast í lagfæringar með sem skemmstum fyrirvara. Í verkið sem nú er fyrir höndum eigi Vegagerðin til dæmis nægilegt efni, aðallega á Selfossi og í Vík.
Í framhaldinu setji Vegagerðin aðgerðahóp á laggirnar sem hittist nokkuð reglulega til að sjá hvernig verkinu vindur fram
Gunnar segir að það fari eftir aðstæðum hvernig tekið sé á svona verkefni en mikið val manna sé fyrir hendi til að mæta ýmsum aðstæðum.
„Þetta hefur því miður oft gerst á síðasta eina og hálfa áratugnum og hefur verið nokkuð títt með brýr og vegi á þessu svæði,“ segir Gunnar. Nefnir hann Skeiðarárhlaupið árið 1996 sem hreif með sér brúna yfir Gígjukvísl og vatnavexti í Markarfljóti í fyrra.
Mun minna mál sé þegar vegur fari í sundur en þegar um brú sé að ræða. Það hafi meðal annars sannað sig í fyrra þegar þjóðvegurinn skemmdist af völdum Markarfljóts. Þá hafi umferð um þjóðveginn verið komin aftur á eftir skamman tíma. Eftir Skeiðarárhlaupið hafi það hins vegar tekið þrjár vikur að koma upp bráðabrigðabrú.
Það taki svo allt að því ár að byggja nýja varanlega brú þegar hönnun og útboð eru tekin með í reikninginn. Ekki er því hægt að gera ráð fyrir nýrri og varanlegri brú yfir Múlakvísl fyrr en í vor.
Gunnar Gunnarsson, aðstoðarvegamálastjóri, segir ekki inni í myndinni að setja upp bráðabrigðabrýr eða ræsishólka yfir ár á Fjallabaksleið nyrðri en þar hefur umferð aukist eftir að þjóðvegurinn rofnaði. Vegagerðin hafi hins vegar sett upp skilti um 60 kílómetra hámarkshraða á klukkustund til að bregðast við meiri umferð og því að óvanari ökumenn aki nú þar um. Áður hafi engar hraðamerkingar verið til staðar og því 80 kílómetra hámarkshraði í gildi. Segir Gunnar að fólk aki of hratt í vöðin og sópi því mölinni fljótt upp úr þeim þannig að þau dýpki. Lykilatriði sé að fara hægt yfir vöð. Vegagerðin vinni að því að lagfæra vöðin þar sem ástandið sé hvað verst.