Stór hjólhýsi fara ekki yfir

Bíll björgunarsveitarinnar Víkverji ferjar hér fyrsta bílaleigubílinn yfir Múlakvísl
Bíll björgunarsveitarinnar Víkverji ferjar hér fyrsta bílaleigubílinn yfir Múlakvísl Eggert Jóhannesson

Þeir sem eru á ferð um Suðurland með stór hjólhýsi í eftirdragi eru beðnir um að fara ekki út að Múlakvísl í von um að koma hjólhýsunum yfir ána á vörubílspalli.

Mbl.is náði nú rétt í þessu tali af Guðrúnu Hildi Kolbeins, formanni björgunarsveitarinnar Víkverja frá Vík í Mýrdal, þar sem hún var í trukki björgunarsveitarinnar á leið yfir ána með bíl á pallinum. Sagði hún að flutningarnir gengju ótrúlega vel nema að því leyti að ekki væri gerlegt að taka stærri gerðir hjólhýsa upp á vörubílspallana.

Allnokkrir bílstjórar á jeppum með slík hjólhýsi hefðu þurft frá að hverfa eftir að fullreynt var að koma slíkum græjum upp á pallana. Þar sem nokkur biðröð er vestan megin, eftir því að fá far yfir, er mælst til þess að fólk fari aðra leið ef það er með stór hjólhýsi.

Frá klukkan sjö í morgun og þar til klukkan tíu voru fluttir um 40 bílar yfir ána og voru þrír trukkar á fullri ferð við það. Síðan þá hefur sami straumur af bílum verið og því má reikna með að 80-90 bílar hafi nú verið fluttir yfir ána í dag.

mbl.is